Bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital, stærsti hluthafi Icelandair, hefur enn ekki gefið út hvort félagið muni nýta áskriftarréttindi að 3,6% hlut í Icelandair á um 2,3 milljarða króna. Kauprétturinn er virkur í tíu daga frá birtingu uppgjörs Icelandair fyrir annan ársfjórðung, sem fór fram fimmtudaginn síðastliðinn 21. júlí, og getur Bain því nýtt kaupréttin út júlímánuði.
Bain Capital kom inn í hluthafahóp Icelandair í júlí á síðasta ári og varð stærsti hluthafinn með 15% hlut. Þá keypti Bain í Icelandair fyrir ríflega átta milljarða króna á genginu 1,43 krónur á hlut. Samhliða því var samið um kauprétt að 2,3 milljarða króna hlut í Icelandair eftir birtingu uppgjörs annars fjórðungs ársins 2022 með útgáfu nýs hlutafjárs.
Kaupréttirnir miðast við upphaflegt kaupgengi, 1,43 krónur að hlut að viðbættum 15% vöxtum á ári, sem samsvarar um 1,64 krónum á hlut sé miðað við ársvexti. Dagslokagengi hlutabréfa í Icelandair stóð í 1,8 krónum við lokun markaða í gær.
Samhliða fjárfestingu Bain Capital kom Matthew Evans, framkvæmdastjóri hjá Bain, inn í stjórnina í stað Úlfars Steindórssonar sem hafði þá setið í stjórninni í áratug.
Bain vildi ekkert gefa upp um mögulega fjárfestingu í júní þegar Túristi sendi félaginu fyrirspurn. Þá stóð gengi Icelandair í 1,41 krónum á hlut og því nokkuð undir innlausnarverðinu en hefur síðan hækkað í 1,8 krónur á hlut.