Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í morgun um 1,25 prósentur var öllu meiri en greiningardeild Íslandsbanka gerði ráð fyrir. Peningastefnunefnd ákvað að hækka vexti úr 7,5% í 8,75%. Jafnframt hækkaði nefndin fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2%.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir peningastefnunefndina hafa slegið harðan tón í morgun og býst hann við því hagkerfið verði öllu kaldara næstu mánuðina en hagspá Seðlabankans gerir ráð fyrir.
„Hækkunin sjálf var auðvitað öllu meiri heldur en við gerðum ráð fyrir. Því til viðbótar er hækkuð bindiskylda á innlánsstofnanir og síðan en ekki síst er sleginn býsna afdráttarlaus tónn um líklega þörf á frekari vaxtahækkun,“ segir Jón Bjarki.
„Þetta er svona aðhaldsþrenna sem er þarna sett fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Samanlagt er þarna um býsna harðan tón að ræða og greinilegt að nefndin hefur miklar áhyggjur af þeirri áskorun sem er að reynast að ná tökum á verðbólgunni.“
Aukið aðhald í opinberum fjármálum hjálpar heilmikið
Spurður um hvort hann telji þörf á frekari aðgerðum til að bregðast við verðbólgunni m.a. með auknu aðhaldi í ríkissfjármálum, svarr hann því játandi.
„Ég held að við getum tekið undir það sem kom fram á kynningarfundi áðan að það væri hjálp í því að opinber fjármál væru aðhaldssamari. Bankinn er með rammagrein í peningamálum þar sem reynt er að slá mati á hverju það gæti munað fyrir hagþróun þar á meðal þörfinni á háum vöxtum sem og áhrifum á aðrar mikilvægar hagstærðir og það er greinilegt samkvæmt því mati að það munar heilmikið um aukið aðhald í opinberum fjármálum,“ segir Jón Bjarki.
„Ég get heilshugar tekið undir það að það er mikilvægt að stjórnvöld komi í ríkari mæli að því borði að ná tökum á þenslunni og verðbólgunni í hagkerfinu,“ bætir hann við.
Peningastefnunefnd greindi frá því í morgun að efnahagsumsvif hafi verið kröftug það sem af ef ári og samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er spáð 4,8% hagvexti á árinu í stað 2,6% í febrúar. Þar vegi horfir á meiri vexti innlendrar eftirspurnar þungt en einnig sé útlit fyrir kröftugri umsvif í ferðaþjónustu.
Sterkt hagkerfi lúxusvandi og áskorun
Aðspurður um efnahagshorfur næstu sex mánuðina, segir Jón Bjarki þær góðar og vegur ferðaþjónustan þar þyngst.
„Nær horfurnar eru býsna góðar. Það kemur líka fram í kynningunni í morgun og ritinu þeirra. Okkar stærsta útflutningsgrein, ferðaþjónustan, er að ná vopnum sínum mjög myndarlega og ferðaþjónustusumarið verður gott nema eitthvað mikið komi fyrir,“ segir Jón Bjarki og bætir við að aðrar útflutningsgreinar eru einnig á góðu róli.
„Það er ágætur gangur líka í fyrirtækjum og starfsemi sem þjónar innlendri eftirspurn t.d. í verslun, í iðnfyrirtækjum og byggingargeiranum. Þannig að hagkerfið er býsna sterkt. Sem er lúxusvandi en áskorun á sama tíma því eiginlega er meiri gangur heldur en við ráðum með góðu móti við sem hagkerfi á mörgum sviðum.“
SÍ mögulega að lesa of sterkt í fyrsta fjórðung
Seðlabankinn býst við því að þurfa að hækka stýrivexti enn frekar og segir Jón Bjarki það meðal annars vegna þess að vaxtahækkanir hafa ekki verið að bíta nægilega mikið.
„Nýlegir hagvísar sýna reyndar að það er svolítið að draga úr eftirspurnarvexti sér í lagi í einkaneyslunni, eftir mikinn kipp í upphafi árs. Mér finnst Seðlabankinn mögulega lesa aðeins of sterkt í fyrsta fjórðung. Hann var óvenjulegur. Ef við erum að horfa á ársvöxt og berum saman fyrsta fjórðung við fyrsta fjórðung 2022 þá var Covid enn á lokametrunum fyrir rúmi ári.“
„Við það bætist að stór hluti launþega fékk myndarlega launahækkun, sem þar að auki var afturvirk. Þannig fólk fékk aukasummu í launaumslagið núna í upphafi árs. Okkur sýnist á kortaveltutölum, innflutningstölum og öðru að það sé byrjað að draga úr þessum vexti,“ segir Jón Bjarki.
Jón Bjarki segir að þarna megi sjá einhver áhrif af vaxtahækkunum og hertu peningalegu aðhaldi.
„Sama má segja um íbúðamarkaðinn þó það hafi komist fjörkippur í hann núna allra síðustu mánuði þá er verðhækkunartakturinn allur hægari, mun hægari, heldur en var fyrir ári síðan og þar á peningastefnan hluta að máli líka.“
Býst við kaldara hagkerfi
Efnahagsspá Seðlabankans var að mati Jóns mun bjartsýnni en spá Íslandsbanka ekki síst hvað varðar fjárfestingu. Hann tekur þó fram að SÍ sagði að efnahagsspáin væri sviðsmynd sem bankinn vilji ekki sjá raungerast.
„Þau fá spána upp í hendur þegar þau eru að ákveða vextina og þenslan og verðbólguþrýstingurinn þar er meiri heldur en þau vilja sjá. Þau eru í raun meðal annars að bregðast við þessari spá með hörðum tón og mikilli vaxtahækkun. Þannig ég held við getum búist við því að hagkerfið verði kaldara heldur en þarna er spáð,“ segir Jón Bjarki að lokum.