Fasteignafélagið Heimar hagnaðist um 1,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við 3,9 milljarða á sama tímabili í fyrra. Félagið birti afkomutilkynningu vegna fyrsta ársfjórðungs eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Minni hagnað má rekja til þess að matsbreyting fjárfestingareigna nam 1,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 5,2 milljarða króna á fyrsta fjórðungi 2024. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á fyrsta fjórðungi jókst um 3,2 % milli ára og nam 2.449 milljónum króna.
Rekstrartekjur Heima á fjórðungnum námu 3.686 milljónum króna fyrstu þrjá mánuði ársins og þar af námu leigutekjur 3.486 milljónum. Þegar leiðrétt er fyrir áhrifum vegna seldra eigna nemur hækkun leigutekna 5,9% milli ára, sem jafngildir um 1,2% raunaukningu.
„Félagið skoðar ætíð tækifæri til sölu tiltekinna eigna jafnt og ytri fjárfestingar og hefur heildarfermetrum í eignasafninu fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022 með stefnumiðaðri eignasölu. Á árinu 2024 seldi félagið eignir fyrir 3,3 milljarða þar sem verðið var að meðaltali ríflega 10% yfir bókfærðu virði,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima.
„Stjórnendur munu áfram nýta tækifæri til eignasölu sé hún skynsamleg út frá hagsmunum hluthafa. Virði hlutafjár Heima er lægra en bókfært eigið fé félagsins að viðbættri tekjuskattsskuldbindingu og vinna stjórnendur markvisst að því að auka arðsemi félagsins. Heimar eru hluthafavænt félag og við miðum við áframhaldandi endurkaup eigin bréfa meðan markaðsvirði er undir bókfærðu virði eigin fjár að viðbættri óvaxtaberandi tekjuskattsskuld.“
Virði fjárfestingaeigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 190,7 milljarða króna. Safnið samanstendur af 94 fasteignum sem alls eru um 365 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.
Fram kemur að félagið gerði 24 leigusamninga fyrir tæplega 7.770 fermetra á fyrsta ársfjórðungi. Meirihluti af leigusamningum tímabilsins voru nýir samningar.