Danska matvælastofnunin bannaði í þessari viku sölu á kóresku Samyang-pakkanúðlunum af tegundinni Buldak 3x Spicy Hot Chicken en tegundin var talin vera skaðleg heilsu fólks.

Katrín Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir að ekki sé búið að taka svipaða ákvörðun á Íslandi en segir að stofnunin muni halda áfram að fylgjast með þróun mála og bregðast við ef aðstæður kalla á.

Danska matvælastofnunin bannaði í þessari viku sölu á kóresku Samyang-pakkanúðlunum af tegundinni Buldak 3x Spicy Hot Chicken en tegundin var talin vera skaðleg heilsu fólks.

Katrín Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir að ekki sé búið að taka svipaða ákvörðun á Íslandi en segir að stofnunin muni halda áfram að fylgjast með þróun mála og bregðast við ef aðstæður kalla á.

Danir hafa þá innkallað þrjár bragðtegundir vegna þess að þær innihalda, samkvæmt þeirra áhættumati, hættulega mikið magn af kapsaikíni (e. capsaicin) sem er efni sem fyrirfinnst náttúrulega í eldpipartegundum (chili).

„Í löggjöf, hér og í Evrópu, eru ekki til nein lagaleg hámarksgildi fyrir magn þessara efna. Það fyrirfinnst hins vegar sú almenna regla að ekki megi hafa á boðstólum matvæli sem geta valdið heilsuskaða, og á því byggir ákvörðun danskra matvælayfirvalda, að fengnu áhættumati frá vísindamönnum hjá áhættumatsstofnun þeirra á sviði matvælaöryggis (DTU). Þjóðverjar og þeirra áhættumatsstofnun, BfR, hafa einnig verið að skoða hættuna. Fyrir liggur áhættumat frá 2011 hjá Þjóðverjum, sem er í endurskoðun núna en niðurstaða liggur ekki fyrir,“ segir Katrín.

Hún segir helstu skaðlegu áhrif of mikillar neyslu vera áhrif á slímhúð meltingarfæra, uppköst, niðurgang, verki og svo að blóðþrýstingur geti hækkað snöggt, sem gæti reynst afar skaðlegt.

„Eftir því sem sérfræðingur okkar kemst næst eru Danir þarna að ríða á vaðið með að hreinlega banna tilteknar vörur, á meðan aðrar þjóðir hafa ekki gengið svo langt a.m.k. enn þá. Það mætti sjá fyrir sér að í framtíðinni verði sett einhver hámarksgildi fyrir þessi efni í matvælum vegna þess að sannarlega geta þau verið skaðleg í miklu magni. Matvælastofnun mun áfram fylgjast með þróun þessara mála og bregðast við ef aðstæður kalla á. Að svo stöddu þá er ráðgert að setja fram upplýsingar/viðvörun til neytenda almennt um neyslu á mjög sterku chili.“

Þá segir Katrín að helsta áhættan í tengslum við neyslu þessara vara komi sérstaklega fram þegar farið er í svokallaðar áskoranir, þar sem fólk borðar mjög sterkan mat og hundsar skilaboð líkamans um brunatilfinningu til að halda neyslunni áfram.

„Fólk er mjög misviðkvæmt fyrir áhrifum og sumir virðast þola mikið meira en aðrir án skaðlegra áhrifa. Börn geta þá verið mjög viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum.“