Fyrsta farþegaþota sem framleidd hefur verið í Kína lauk sínu fyrsta áætlunarflugi frá Shanghai til Peking á sunnudaginn. Flugvélin, sem er af gerðinni C919, ferjaði um 130 farþega og tók flugið alls þrjár klukkustundir.

Flugvélin var smíðuð af kínverska ríkisfyrirtækinu Comac (e. Commercial Aircraft Corporation of China) og vonast þarlend stjórnvöld að hún verði samkeppnishæf við Airbus og Boeing. Þotan sjálf er kínversk er notast aftur á móti við vestræna hreyfla og vestrænan tæknibúnað.

Kínverska flugfélagið China Eastern Airlines hefur þegar pantað fimm C919 flugvélar en alls hafa 1.200 pantanir borist til Comac. Fyrirtækið áætlar að framleiða í kringum 150 stykki á hverju ári næstu fimm árin.

Framleiðsla flugvélarinnar virðist hafa vakið mikið þjóðarstolt meðal Kínverja en fréttastofa Reuters var á flugvellinum í Shanghai og náði tal af nokkrum farþegum fyrir flugið. „Ég er mjög öruggur með landið okkar. Ég held að C919 vélin eigi eftir að vera betri og betri,“ sagði farþeginn Liu Peng.

Fyrsta tilraunaflug C919 vélarinnar fór fram árið 2017 en eftir að hafa lokið sínu fyrsta áætlunarflugi um helgina verða nú regluleg áætlunarflug á milli Shanghai og kínversku borgarinnar Chengdu.