Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segist vera að íhuga hvort það muni ákæra flugvélaframleiðandann Boeing vegna tveggja flugslysa árin 2018 og 2019 í Indónesíu og Eþíópíu.

Samkvæmt BBC braut Boeing gegn samkomulagi frá 2021 sem verndaði fyrirtækið frá slíkum ákærum.

Að sögn ráðuneytisins uppfyllti Boeing ekki kröfur um að hanna, innleiða og framfylgja regluverki og siðferðisáætlun til að koma í veg fyrir og upplýsa brot á bandarískum lögum í starfsemi sinni.

Samkvæmt samningnum greiddi Boeing 2,5 milljarða dala í sátt en saksóknarar féllust á að biðja dómstóla um að fella niður öll sakamál yfir þriggja ára tímabil. Ættingjar fórnarlambanna hafa hins vegar kallað eftir refsiaðgerðum gegn fyrirtækinu.

„Þetta er jákvætt fyrsta skref og fyrir fjölskyldurnar er langur tími fram undan. En við þurfum að sjá frekari aðgerðir frá dómsmálaráðuneytinu til að draga Boeing til ábyrgðar,“ segir Paul G Cassell, lögfræðingur fjölskyldna fórnarlambanna í yfirlýsingu.