Aukin fjárfestingastarfsemi í Bandaríkjunum jók afkomu stóru fjárfestingabankanna á öðrum ársfjórðungi til muna. JPMorgan Chase og Goldman Sachs báru af í þeim geira en samkvæmt The Wall Street Journal hafa bankarnir náð að sannfæra viðskiptavini sína um að ráðast í yfirtökur og skuldabréfaútboð í meiri mæli en á síðustu misserum.
Hagnaður JPMorgan Chase á öðrum ársfjórðungi nam 18,1 milljarði Bandaríkjadala en enginn banki í sögunni hefur hagnast jafn mikið á einum fjórðungi, samkvæmt Bloomberg.
Um er að ræða 25% aukningu frá sama fjórðungi í fyrra en fjárfestingabankastarfsemi skilaði um 2,4 milljarða dala hagnaði á meðan hagnaður af verðbréfaviðskiptum nam 3 milljörðum dala. Gengi JPMorgan Chase hefur hækkað um 4% síðustu fimm daga.
Hagnaður Goldman Sachs á öðrum ársfjórðungi jókst um 150% frá sama tímabili í fyrra og nam 3 milljörðum dala. Gengi bankans hefur hækkað um rúm 6% síðustu fimm daga.
Að mati The Wall Street Journal er efnahagur Bandaríkjanna þó enn á viðkvæmu stigi og ekki þarf mikið til að frekari átök í alþjóðastjórnmálum gætu valdið því að fjárfestar fari aftur að halda að sér höndum.
Uppgjör banka með stærri neytendalánasöfn eins og Bank of America og Wells Fargo mála einnig aðra mynd en háir vextir og verðbólga höggva verulega í fjárhag almennings
Fjárfestingabankastarfsemin snýr aftur
Hagnaður Goldman Sachs, JPMorgan Chase, Bank of America, Morgan Stanley og Citigroup af fjárfestingabankastarfsemi jókst um meira en 10% á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama fjórðung í fyrra.
Háir vextir hafa haldið fjárfestingabankastarfsemi í Bandaríkjunum í dvala síðastliðin tvö ár en David Solomon, forstjóri Goldman Sachs, sagði á fjárfestafundi að það væru skýr merki um að endursókn í samrunum og yfirtökum.
Á heimsvísu jukust samrunar og yfirtökur um 8% á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra en staðan er langt frá því að líkjast markaðinum skömmu eftir faraldurinn.
Hlutafjárútboð hafa enn ekki tekið við sér með sama hætti og vonast var til en sem dæmi ákvað miðasölufyrirtækið StubHub að fresta skráningu á markað á föstudaginn vegna dræmrar eftirspurnar í útboði félagsins.
Hækkanir á markaði hjálpa til
Eignastýring bankanna naut góðs af miklum hækkunum á hlutabréfamörkuðum á öðrum fjórðungi. Hagnaður Goldman Sachs af eignastýringu jókst um 27% á tímabilinu í samanburði við sama tímabil í fyrra.
Hagnaður Bank of America, JPMorgan og Well Fargo af eignastýringu hækkaði um 6% á öðrum ársfjórðungi miðað við annan ársfjórðung 2023.
Eignastýring stóru fjárfestingabankanna hefur á síðustu árum vegið á móti daufum fjárfestingabankamarkaði en nú, eins og í tilfelli Goldman, er eignastýringin ágætis viðbót við öfluga afkomu fjárfestingabankastarfsemi.
Aukin vanskil hjá lágtekjufólki
Samkvæmt The Wall Street Journal sýna uppgjör bankanna einnig að neytendur eru enn að eyða og taka lán en vinnumarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur verið á góðu róli síðustu misseri.
Há verðbólga og vextir hafa hins vegar verið að hafa mjög neikvæð áhrif á tekjuminni fjölskyldur.
Í uppgjörum JPMorgan, Wells Fargo, Bank of America og Citi voru merki um að neytendur væru að dreifa kreditkortareikningum milli mánaða. Þá var einnig aukning í vanskilum.
JPMorgan og Bank of America lögðu fé til hliðar á fjórðungnum til að mæta mögulegum vanskilum á komandi fjórðungum.
Í uppgjöri Citi segir að viðskiptavinir bankans með lágt lánshæfismat hafi verið að taka fleiri lán til að mæta greiðslum af öðrum lánum.
Bank of America sagði í gær að útlánatap á kreditkortum hefði haldist jafnt yfir tímabilið frá því fyrr á þessu ári og ætti að halda áfram að batna.
Engu að síður sagði fjármálastjóri JP Morgan, Jeremy Barnum, í uppgjöri bankans að þróunin væri þó „enn í takt við tiltölulega heilbrigðan neytendamarkað.“