Elon Musk hefur á undanförnum vikum leitað til gervigreindarsérfræðinga til að þróa gervigreindartækni sem á að veita ChatGPT samkeppni.

Musk hefur nú þegar ráðið Igor Babuschkin, sérfræðing sem nýlega lét af störfum hjá gervigreindardeild innan Alphabet, móðurfélags Google.

OpenAI stendur á bak við þróun ChatGPT, en fyrirtækið var stofnað árið 2015, meðal annars af Elon Musk. Musk yfirgaf stjórn félagsins árið 2018.

Tæknirisarnir vestanhafs hafa í auknum mæli horft til fjárfestinga í gervigreindartækni. Google hefur fest kaup á 10% hlut í gervigreindarsprotanum Anthropic á 300 milljónir dala. Þá á Microsoft í viðræðum um 10 milljarða dala fjárfestingu í OpenAI.