Elon Musk forstjóri Tesla segist hafa tryggt 25 milljarða dala lánsfjármögnun fyrir yfirtökutilboð sitt í samfélagsmiðilinn Twitter , auk þess sem hann muni leggja 21 milljarð fram sjálfur. Wall Street Journal greinir frá .
Musk hafði áður lýst yfir vilja til að taka félagið yfir, en margir höfðu lýst yfir efasemdum um að honum tækist að tryggja fjármögnun, ekki síst vegna yfirlýsingar hans árið 2018 um að hann hefði tryggt fjármögnun til að kaupa upp og afskrá Tesla af markaði, sem Musk birti einmitt á Twitter.
Sú yfirlýsing reyndist innistæðulaus og þar með lögbrot og kom Musk í töluverð vandræði hjá verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna. Málið endaði með sektargreiðslu auk þess sem Musk var látinn stíga til hliðar sem stjórnarformaður rafbílaframleiðandans, en hélt forstjórastólnum.
Sem tryggingu fyrir bankalánunum mun frumkvöðullinn og ríkasti maður heims leggja fram þriðjung bréfa sinna í Tesla að andvirði 62,5 milljarða dala. Því til viðbótar mun hann svo þurfa að losa um eignir til að útvega reiðuféð, hvort sem það verður með sölu á hlut í Tesla eða öðrum óskráðum eignum á borð við SpaceX og Boring Company.