Deilum Elon Musk, forstjóra Tesla og Twitter, og Haraldar Þorleifssonar, stofnanda Ueno, á samfélagsmiðlinum virðist vera lokið eftir að þeir ræddu saman í síma. Musk baðst afsökunar á Twitter í gærkvöldi og sagði að Haraldur væri að íhuga að starfa áfram hjá Twitter.

„Ég vil biðja Halla afsökunar á misskilningi mínum á aðstæðum hans. Hann byggði á hlutum sem mér hafði verið tjáð sem reyndust ekki sannir eða í sumum tilfellum sannir en skiptu ekki máli,“ tísti Musk.

Samskipti þeirra á samfélagsmiðlinum hófust á mánudaginn þegar Haraldur, sem seldi Ueno til í ársbyrjun 2021, spurði Musk hvort hann væri enn þá starfsmaður hjá Twitter eftir að lokað var fyrirvaralaust á aðgang hans að vinnugögnum sínum. Einnig spurði hann hvort staðið yrði við ákvæði samnings síns um starfslokagreiðslu.

Musk brást við með því að spyrja Harald hvað hann hefði verið að fást við fyrir hönd fyrirtækisins. Musk hélt áfram og sakaði Harald um að koma sér undan raunverulegri vinnu fyrir Twitter og nota fötlun sína sem afsökun.