Elon Musk hefur ákveðið að beina at­hygli sinni aftur að Tesla eftir að af­koma fyrir­tækisins dróst veru­lega saman á fyrsta árs­fjórðungi.

Ákvörðunin kemur í kjölfar gagn­rýni á pólitíska aðkomu hans og vaxandi ímyndar­kreppu hjá raf­bíla­fram­leiðandanum.

Hagnaður Tesla dróst saman um 71% milli ára og nam 409 milljónum dala. Sala dróst einnig saman um 13% miðað við sama tíma í fyrra, og missti Tesla í kjölfarið stöðu sína sem stærsti raf­bíla­fram­leiðandi heims til kín­verska keppi­nautarins BYD.

Af­koman á fyrsta árs­fjórðungi langt undir spám markaðsaðila og sú versta í fyrra ár.

„Frá og með næsta mánuði mun ég verja mun meiri tíma mínum í Tesla,“ sagði Musk á fjár­festa­fundi í gær en Financial Times greinir frá.

Þrátt fyrir þessa breytingu hyggst hann ekki segja sig frá starfi form­lega og telur lík­legt að hann gegni áfram leið­toga­hlut­verki innan DOGE út kjörtíma­bil Donalds Trump for­seta.

„Ég vil tryggja að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur í að upp­ræta sóun og svik í opin­berri stjórnsýslu,“ sagði hann.

Markaðurinn bregst við

Fréttirnar vöktu jákvæð viðbrögð meðal fjár­festa og hækkuðu hluta­bréf Tesla um allt að 7,8% í við­skiptum eftir lokun markaða. Aðeins hefur dregið úr hækkuninni og má áætla að bréf Tesla opni um 5% hærri á eftir.

Tengsl Musks við Trump Bandaríkja­for­seta hafa reynst raf­bíla­fram­leiðandanum erfið en mót­mæli hafa brotist út við sölu­staði fyrir­tækisins og vöru­merkið hefur í auknum mæli verið tengt við stefnu for­setans.

Við­skipta­að­gerðir ríkis­stjórnarinnar, einkum hár tollur á kín­verskar vörur, hafa einnig sett strik í reikninginn hjá Tesla.

Þrátt fyrir að fram­leiðsla bif­reiða fari að mestu fram í Bandaríkjunum er fyrir­tækið háð inn­flutningi á íhlutum, meðal annars raf­hlöðum frá Kína.

Vaibhav Taneja, fjár­mála­stjóri Tesla, varaði við því að þessir tollar gætu haft „ósann­gjörn“ áhrif á orku­geymslu­einingar fyrir­tækisins.

DOGE dregið niður á jörðina

Musk hafði í upphafi fullyrt að DOGE myndi skera niður allt að 2.000 milljarða dala úr útgjöldum bandaríska ríkisins. Nú segir hann sparnaðinn nema um 150 milljörðum, og gefur í skyn að megnið af vinnunni sé þegar að baki.

Sýnileiki Musks innan ríkisstjórnarinnar hefur minnkað undanfarna mánuði og hann hefur staðið í deilum við áhrifamenn þar innanborðs, einkum vegna viðskiptastefnunnar.

Nýverið kallaði hann Peter Navarro, helsta hugmyndafræðing tollastefnu ríkisstjórnarinnar, „fávita“ og ítrekaði að lægri tollar væru „forsenda velmegunar“.

Hann bætti þó við að ákvörðunartakan væri á valdi forseta, sem kjörinn væri af þjóðinni.