Elon Musk hefur úthúðað Peter Navarro, hugmyndasmiði tollastríðs Donald Trump Bandaríkjaforseta. Musk kallaði Navarro fávita (e. moron) og sagði hann „heimskari en sekkur af múrsteinum“ (e. dumber than a sack of bricks) í færslu á samfélagsmiðlinum X.

Um er að ræða skýrustu birtingarmynd af mögulegum ágreiningi milli Trump og Musk, ríkasta manni heims, til þessa að því er segir í frétt Financial Times.

Musk, sem hefur lengi verið mótfallinn tollum, gagnrýndi Navarro eftir að hagfræðingurinn lýsti þeim fyrrnefnda í viðtali við CNBC sem bílasamsetningarmanni (e. car assembler), fremur en bílaframleiðanda, sem afli ódýrra íhluta fyrir Teslur erlendis frá. Þannig innihaldi hluti af vélum Tesla bifreiða batterí frá Japan og Kína og aðra íhluti frá Taívan.

Navarro gaf til kynna að það væri ekki í þágu Bandaríkjanna að kaupa íhluti í bifreiðarnar erlendis frá og það væri betra fyrir hagkerfið ef þeir væru framleiddir innanlands. Jafnframt myndi það styðja við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Hann sagði Musk einfaldlega vera að verja eigin hagsmuni þegar hann kallaði eftir að dregið verði úr tollum.

Musk svaraði þessum ummælum á samfélagsmiðlinum X og sagði Navarro bersýnilega fara með rangt mál. Hann heldur því fram að enginn bílaframleiðandi sé með jafnstóran hluta framleiðslunnar í Bandaríkjunum (e. most American-made cars).

Deilurnar milli Musk og Navarro fylgja í kjölfar þess að Musk, sem eyddi meira en kvartmilljarði dala í kosningaherferð Trump og rekur niðurskurðarráðuneyti Bandaríkjanna, DOGE, hefur ítrekað gefið til kynna að hann sé óánægður með tollastefnu Trump ríkisstjórnarinnar.

Musk sagði á ráðstefnu um helgina, sem Matteo Salvini aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu skipulagði, að hann vonaðist eftir að Bandaríkin og Evrópa myndu ná samkomulagi um fríverslunarsamning og fella þannig niður alla tolla sín á milli.

Bróðir Musk, Kimbal, sem situr í stjórnum Tesla og SpaceX, kallaði tolla Trump varanlegan skatt á bandaríska neytendur í færslu á X í gær. „Skattur á neyslu þýðir einnig minni neysla. Sem þýðir færri störf,“ skrifaði Kimbal.

Pólitískt vægi Musk hjá ríkisstjórninni var þegar undir þrýstingi áður en Trump tilkynnti formlega um tolla á viðskiptaríki Bandaríkjanna í síðustu viku eftir að frambjóðandi til hæstaréttar Wisconsin, sem auðkýfingurinn studdi, tapaði með afgerandi hætti sem varð til þess að Demókratar tryggðu sér meirihluta fulltrúa í hæstarétti Wisconsin næstu þrjú árin.

Hvíta húsið staðfesti einnig í síðustu viki að störf Musk innan ríkisstjórnarinnar, sem áttu upphaflega að halda áfram inn í næsta ár, gætu tekið enda innan nokkurra vikna þegar vinna hans í tengslum við DOGE lýkur. Trump sagði að milljarðamæringurinn myndi á einhverjum tímapunkti snúa sér alfarið aftur af fyrirtækjunum sínum.

Í umfjöllun FT er einnig bent á að tengsl Musk við Trump hafi gert Tesla erfitt fyrir vegna óánægju hóps neytenda gagnvart hagræðingaráformum DOGE. Hlutabréfaverð Tesla hefur lækkað um 39% í ár.