Elon Musk, eigandi Tesla, segist andvígur tollum bandarískra yfirvalda á kínverska rafbíla. Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir nokkrum dögum að ríkisstjórn hans myndi fjórfalda tolla á alla rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína.
Musk lét orðin falla á tækniráðstefnu í París í gegnum fjarbúnað og sagði hvorki hann né Tesla hafi beðið um þessa tolla.
Ummæli hans virðast vera á skjön við þá viðvörun sem hann gaf í janúar um að kínverskir bílaframleiðendur myndu rífa niður keppinauta sína frá öðrum löndum ef viðskiptahindrunum yrði ekki komið fyrir.
„Í raun var ég hissa þegar tilkynnt var um þessa tolla. Hlutir sem hindra viðskiptafrelsi eða skekkja markaðinn eru ekki góðir. Tesla keppir nokkuð vel á markaðnum í Kína með enga tolla og enga utanaðkomandi aðstoð.“
Biden hefur einnig viðhaldið mörgum tollum á Kína sem forveri hans, Donald Trump, setti fram og hefur haldið því fram að Kína stjórni markaðnum með ósanngjörnum hætti. Kínverjar segjast aftur á móti vera mótfallnir tollunum og myndu hefna sín.