Elon Musk sagði í dag að hann hyggist hætta við að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter. New York Times greinir frá þessu.
Musk hefur í nokkra mánuði sagt að hann væri óánægður með samninginn, sem hljóðar upp á 44 milljarða Bandaríkjadala eða 6 þúsund milljarða króna.
Musk segir í tilkynningu til bandaríska fjármálaeftirlitsins að Twitter og hann deili um fjölda falskra reikninga á samfélagsmiðlinum og ekki sé hægt að komast að samkomulagi um þann fyrirvara í kaupsamningnum. Twitter segir að aðeins 5% reikninganna séu falskir.
Þó kaupin gangi ekki eftir gæti Musk þurft að greiða allt að 1 milljarða dala, um 137 milljarða króna, vegna þeirra samkvæmt Wall Street Journal.
Gengi Twitter hefur lækkað um 6,28% í framvirkum viðskiptum í kvöld.
Stjórnendur Twitter hafa hvorki svarað New York Times né Wall Street Journal í kvöld þegar leitað hefur verið viðbragða við yfirlýsingum Musk.