Elon Musk, forstjóri Tesla, seldi hlutabréf í rafbílaframleiðandanum fyrir ríflega 3,6 milljarða dala eða sem nemur um 510 milljörðum króna frá mánudag til miðvikudags í vikunni. Um er að ræða þriðju sölulotu hans í Tesla frá því að hann tilkynnti í apríl á Twitter að það yrði „engin frekari TSLA sala“. Financial Times greinir frá.

Musk, sem féll úr efsta sætinu á auðmannalista Forbes á dögunum, hefur nú samtals selt hlutabréf í Tesla fyrir nærri 23 milljarða dala frá því að hann tilkynnti um 44 milljarða dala kaup sín á samfélagsmiðlinum Twitter.

Fjármögnun á Twitter yfirtökunni fól m.a. í sér 12,7 milljarða dala af bankaskuldum og 7 milljarða dala af eiginfjárloforðum frá öðrum fjárfestum samkvæmt Musk. Hann gaf því til kynna að hann myndi sjálfur leggja fram 24 milljarða dala til að fjármagna kaupin.

Hlutabréfaverð Tesla hefur fallið um 60% í ár og er markaðsvirði rafbílaframleiðandans nú um 490 milljarðar dala.

Margir hluthafar Tesla hafa áhyggjur af því að Musk sé annars hugar við Twitter. „Elon yfirgaf Tesla sem er nú ekki með neinn starfandi forstjóra,“ skrifaði Leo KoGuan, stór hluthafi, á Twitter.

Musk reyndi að draga úr óánægju hluthafa með færslu á Twitter á þriðjudaginn þar sem hann sagðist ætla að tryggja að hluthafar rafbílaframleiðandans myndu njóta góðs af Twitter til lengri tíma.