Elon Musk leiðir hóp fjárfesta sem hefur lagt fram tilboð upp á 97,4 milljarða dala, sem nemur tæplega 14 þúsund milljörðum króna, í gervigreindarfyrirtækið OpenAI, stofnanda mállíkansins ChatGPT.

Wall Street Journal greinir frá þessu.

Á bak við tilboðið er m.a. gervigreindarfyrirtæki Musk, xAI, sem gæti sameinast OpenAI ef kaupin ganga í gegn, að því er kemur fram í grein WSJ. Í hópi fjárfesta eru einnig fjárfestingarfélögin Valor Equity Partners, Baron Capital, Atreides Management, Vy Capital og 8VC.

Sam Altman, forstjóri OpenAI, gerði lítið úr tilboðinu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) fyrr í kvöld og lagði þar til að OpenAI myndi kaupa Twitter á 9,74 milljarða dala.

Musk keypti Twitter í október 2022 en breytti svo nafni samfélagsmiðilsins í X.

Elon Musk og Sam Altman komu að stofnun OpenAI árið 2015 og var yfirlýst markmið félagsins að þróa gervigreindartækni „til hagsbóta fyrir mannkynið í heild, án hagnaðarsjónarmiða.“

Altman hefur þó unnið að því að breyta OpenAI úr góðgerðarsamtökum yfir í hagnaðardrifið fyrirtæki.

Þá hefur hann leitt aðkomu OpenAI að samstarfsverkefninu Stargate, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í janúar sl. Stargate er samstarfsverkefni OpenAI, Softbank og Oracle um 500 milljarða dala fjárfestingu í gervigreindarinnviðum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, Masayoshi Son, forstjóri Softbank, Larry Ellison, tæknistjóri Oracle, og Sam Altman, forstjóri OpenAI, tilkynntu Stargate samstarfsverkefnið í janúar sl.
© epa (epa)