Myllan-Ora ehf., sem rekur matvælaframleiðslu undir vörumerkjum Myllunnar og Ora, hefur keypt Gunnars ehf., sem framleiðir majónes, sósur og ídýfur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Myllunni-Ora en mbl.is greindi fyrst frá.
Um miðjan júlí var greint frá því að Myllan-Ora hefði fallið frá kaupunum og var Kleópatra Stefánsdóttir því áfram 100% eigandi félagsins.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður Gunnars ehf., sagði þó í samtali við Viðskiptablaðið að samningaviðræður væru enn í gangi og áfram stæði til að selja félagið.
Myllan-Ora ehf. hét áður ÍSAM ehf., en félagið á og rekur matvöruframleiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora. Var félaginu skipt upp fyrir þremur árum og er ÍSAM (heildsala) nú hluti af Ó. Johnsson & Kaaber - ÍSAM ehf.
Í tilkynningu frá Myllunni-Ora segir Kristján Theodórsson, forstjóri fyrirtækisins, að Gunnars sé rótgróið vörumerki sem muni breikka vöruframboð samstæðunnar.
„Umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu er krefjandi en með þessum kaupum getum við styrkt rekstur Myllunnar-Ora og þannig treyst mikilvægan grundvöll innlendrar matvælaframleiðslu,“ segir Kristján.
Sögulegt majónes loksins selt
Fyrirhuguð sala á Gunnars var talsvert í umræðunni í fyrra en Kaupfélag Skagfirðinga náði samkomulagi um kaup á majónesframleiðandanum árið 2022.
Samkeppniseftirlitið ógilti hins vegar viðskiptin í byrjun síðasta árs og bar fyrir sig að með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi.
Kaup Myllunnar- Ora eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins um ógildinguna sagði meðal annars að með kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðundunum á majónesi og köldum sósum á Íslandi.
Enn fremur að samruninn hefði haft „alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns“.