Myllan-Ora ehf., sem rekur mat­væla­fram­leiðslu undir vöru­merkjum Myllunnar og Ora, hefur keypt Gunnars ehf., sem fram­leiðir majónes, sósur og ídýfur.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Myllunni-Ora en mbl.is greindi fyrst frá.

Um miðjan júlí var greint frá því að Myllan-Ora hefði fallið frá kaupunum og var Kleópatra Stefáns­dóttir því áfram 100% eig­andi félagsins.

Sævar Þór Jóns­son, lög­maður Gunnars ehf., sagði þó í sam­tali við Við­skipta­blaðið að samninga­viðræður væru enn í gangi og áfram stæði til að selja félagið.

Myllan-Ora ehf. hét áður ÍSAM ehf., en félagið á og rekur mat­vöru­fram­leiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora. Var félaginu skipt upp fyrir þremur árum og er ÍSAM (heild­sala) nú hluti af Ó. Johns­son & Kaaber - ÍSAM ehf.

Í til­kynningu frá Myllunni-Ora segir Kristján Theodórs­son, for­stjóri fyrir­tækisins, að Gunnars sé rót­gróið vöru­merki sem muni breikka vöru­fram­boð sam­stæðunnar.

„Um­hverfi ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu er krefjandi en með þessum kaupum getum við styrkt rekstur Myllunnar-Ora og þannig treyst mikilvægan grund­völl inn­lendrar mat­væla­fram­leiðslu,“ segir Kristján.

Sögulegt majónes loksins selt

Fyrir­huguð sala á Gunnars var tals­vert í um­ræðunni í fyrra en Kaup­félag Skag­firðinga náði sam­komu­lagi um kaup á majónes­fram­leiðandanum árið 2022.

Sam­keppnis­eftir­litið ógilti hins vegar við­skiptin í byrjun síðasta árs og bar fyrir sig að með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu fram­leiðendum á majónesi og köldum sósum á Ís­landi.

Kaup Myllunnar- Ora eru gerð með fyrir­vara um samþykki Sam­keppnis­eftir­litsins.

Í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins um ógildinguna sagði meðal annars að með kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðundunum á majónesi og köldum sósum á Íslandi.

Enn fremur að samruninn hefði haft „alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns“.