Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra Íslands, sagði að ríkissjóður myndi taka því fagnandi ef Sjálfstæðisflokkurinn ákveði að endurgreiða ríkissjóði ríkisstyrkinn frá árinu 2022, það gæti þó reynst erfitt í framkvæmd.
Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali í Spursmálum í aðdraganda kosninganna að hún vilji endurgreiða ríkisstyrkinn sem flokkurinn fékk árið 2022. En um er að ræða 170 milljónir króna.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Daða Má um ummæli nýkjörins formanns á opnum fundi í stjórnskipunar- og efnahagsnefnd um ákvörðun ráðuneytisins að krefjast ekki endurgreiðslu framlaga til stjórnamálasamtaka.
„Ef þeir [Sjálfstæðisflokkurinn] endurgreiddu það framlag væri rökstuðningur fjármálaráðuneytisins fallinn?“ spurði Sigurður Ingi.
„Nú þarf ég ekki að útskýra fyrir ykkur að sem gæslumaður hagsmuna ríkissjóðs myndi ég auðvitað fagna ef einhverjir aðilar myndu vera tilbúnir að greiða ríkinu fé. Við höfum rætt það í ráðuneytinu hvernig viðtaka þessara fjármuna gæti farið fram því þrátt fyrir að ríkið gæti hagsmuna sinna vandlega þá gætir það hagsmuna borgaranna einnig. Ef að þið tækið ykkur til og greidduð ríkissjóði fjárhæð myndi ríkissjóður endurgreiða fjárhæðina umsvifalaust því það væri engin sérstök heimild til að taka við peningunum,“ sagði Daði Már.
Hann bætti við að af þeim sökum væri ekki alveg augljóst hvernig endurgreiðsla Sjálfstæðisflokksins færi fram.
„En kæmi slík beiðni fram myndi ég að sjálfsögðu taka henni fagnandi og reyna að leysa úr því máli,“ sagði Daði Már.
Sigurður Ingi sagði jafnframt að málið í heild sinni væri augljóst klúður en tók þó fram að það átti sér stað áður en hann kom í fjármálaráðuneytið.
„Þegar um klúður er að ræða og menn gefa ekki upp réttar upplýsingar og eiga ekki rétt á greiðslum, eins og innheimtumaður ríkissjóðs sagði hérna rétt áðan, þá gengur ríkið nú yfirleitt nokkuð hart eftir því að fá það innheimt.“
Sigurður Ingi sagði að í þeim ytri lögfræðiálitum sem ráðuneytið óskaði eftir hefði verið gert heldur lítið úr þeirri staðreynd að það voru framkvæmdastjórar flokkanna sem undirbyggðu frumvarpið og það voru formenn flokkanna sem lögðu það fram.
„Þannig það að einhver í einhverjum flokki hafi ekki verið upplýstur um hvað þar stæði, hljómar dálítið hjákátlega,“ sagði Sigurður og bætti við að auðvitað gætu menn reynt að rökstyðja sig þangað.
Hann spurði jafnframt um hvort ráðuneytinu hefði verið heimilt að fresta greiðslu til Flokks fólksins í ár þar sem það teldist eðlilegt að þegar fjárveitingarvaldið hefur tekið ákvörðun um fjárveitingu þá þurfi framkvæmdarvaldið að greiða út til tiltekinna verkefna.
„Þetta höfum við skoðað og teljum að skilyrði sé innan ársins. Þannig, eins og hefur komið fram, að núna þegar verklagið hefur verið endurskoðað og farið er að lögunum, þá fékk Flokkur fólksins ekki greitt en þessar heimildir eru þess eðlis að þó að það sé í lögunum ákvæði um ákveðinn útgreiðsludag þá er sá útgreiðsludagur fyrst og fremst til að tryggja að stjórnmálasamtökin fái tímalega greitt en skilyrðin eru að greiðslan sé innan ársins,“ sagði Daði Már.
Sigurður Ingi óskaði eftir minnisblaði um þessa heimild og túlkun á lögum um opinber fjármál.