Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann myndi lækka tolla á Kína til að aðstoða við sölu á samfélagsmiðlinum TikTok, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance.
Forsetinn segist vera tilbúinn að framlengja frestinn sem ByteDance hefur til að selja TikTok til 5. apríl í von um að finna mögulegan kaupanda sem væri ekki frá Kína.
Joe Biden, fyrrum Bandaríkjaforseti, undirritaði lög í fyrra sem neyddu ByteDance til að selja TikTok af þjóðaröryggisástæðum. Eftir að Donald Trump tók við embættinu frestaði hann ákvörðuninni en hún átti að taka gildi í janúar á þessu ári.
„Með tilliti til TikTok og Kína þarf náttúrulega að gera eitthvað líka, hugsanlega í formi samþykkis, kannski, og ég held að þeir muni gera það. Kannski læt ég þá fá tollalækkun eða eitthvað til að koma þessu í lag,“ sagði Trump í vikunni.
TikTok er með meira en 170 milljónir notenda í Bandaríkjunum og er Donald Trump meðal annars notandi. Hann er með 15 milljónir fylgjenda og fylgdust milljarðar manna með reikningi hans í síðustu kosningabaráttu.