Hugbúnaðarfyrirtækið dk hugbúnaður hélt upp á 25 ára afmæli fyrirtækisins í veislusalnum Sjálandi í Garðabæ í gær. Margir þekktir bókarar og endurskoðendur mættu í veisluna, auk starfsfólks dk.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan dk var stofnað í desember 1998 en þá var aðeins einn starfsmaður í einu herbergi að Hafnarstræti 20. Í dag er dk eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins með yfir 60 starfsmenn.

„Hugbúnaðurinn okkar er að fullu þróaður á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður og hefur verið vinsælasti viðskiptahugbúnaðurinn í rúmlega 20 ár með um 55% markaðshlutdeild. Það hefur verið reglulegur og góður vöxtur í allri starfseminni okkar nánast frá fyrsta degi og í dag eru um sjö þúsund fyrirtæki með kerfi frá okkur,“ segir Hulda Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri dk hugbúnaðar.

Fyrsta vara dk varð til árið 2000 en dk-hugbúnaðurinn kom á markað 2001. Fyrirtækið hóf útrás til Danmerkur, Svíþjóðar og Englands árið 2005 og hugbúnaðurinn var þýddur yfir á dönsku, sænsku og ensku.

Fyrirtækið setti upp starfsstöðvar í Kaupmannahöfn, Uppsala og London sama ár. Árið 2013 var rekstur fyrirtækisins endurskipulagður og tveimur árum síðar fór velta fyrirtækisins í fyrsta skipti yfir milljarð króna. Árið 2020 keypti TSS dk hugbúnað.

„Það eru spennandi tímar fram undan hjá dk. Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast í upplýsingatæknigeiranum og enginn dagur eins. Hjá dk starfar öflugur hópur fólks með mikla reynslu, góða menntun og sérhæfingu. Fyrirtækið státar sig af því að hafa eitt hæsta hlutfall kvenna hjá fyrirtækjum í upplýsingatækni sem og fjölda kvenna í stjórnunarstöðum innan fyrirtækisins. Hlutfall kvenna í dk er um 40% og meirihluti í framkvæmdastjórn eru konur,” segir Hulda jafnframt.