Hin árlega Viðurkenningarhátíð FKA fór fram á Hótel Reykjavík Grand síðasta miðvikudag en þar voru konur úr atvinnulífinu heiðraðar. Að lokinni athöfn var fagnað með FKA, fólki úr atvinnulífinu og nánustu fjölskyldu og vinum viðurkenningarhafa.
Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu var Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, sem var FKA viðurkenningarhafi 2024. Inga Tinna Sigurðardóttir, stofnandi Dineout, var FKA hvatningarviðurkenningarhafi 2024 og hlaut Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, nýr forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, FKA þakkarviðurkenningu 2024.
Sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar sem bárust frá almenningi og atvinnulífinu og valdi eina í hverjum flokki sem voru heiðraðar á hátíðinni.
FKA Viðurkenningin er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið eða er konum í atvinnulífinu sérstök hvatning og fyrirmynd.
Hvatningarviðurkenning FKA er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði eða nýjungar í atvinnurekstri.
Þakkarviðurkenning FKA er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.
„Einstaklingar úr atvinnulífinu, félagskonur FKA og nánasta fólk viðurkenningarhafa fengu að verða vitni að töfrum í loftinu á Hótel Reykjavík Grand. Við nutum stundarinnar saman og fylltumst krafti og gleði að sjá þessar konur heiðraðar í ár á Viðurkenningarhátíðinni. Ég hef áður tappað orku kvenna á flöskur sem ég hugsaði til útflutnings en gerði ekkert í því. Nú læt ég verða af því og peningarnir fara þá fyrst að streyma inn á reikninginn. Þið sjáið mig hlæja alla leið í bankann,“ segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.