Viðskiptablaðið rak á dögunum augu í smáauglýsingu Eiríks Lindals í Bændablaðinu þar sem hann óskaði eftir gömlum hlutabréfum frá Loftleiðum, Flugfélagi Íslands og öðrum flugfélögum. Eiríkur óskaði einnig eftir einkennismerkjum og aðra gömlum safngripum frá flugfélögunum.
Eiríkur segist hafa safnað gömlum hlutabréfum frá íslenskum flugfélögum í mörg ár. Hann hefur áskotnast bréf frá nokkrum flugfélögum og tók vel í að senda Viðskiptablaðinu nokkrar myndir af þeim.
„Ég á eitt gamalt frá F.Í. en vantar fjölmargar útgáfur frá F.Í. (félagið var stofnað mörgum sinnum), og svo allar útgáfur frá Loftleiðum. Ég á bréf frá Flugleiðum/Icelandair frá því eftir sameininguna. Nú eru bréfin rafræn svo að ég er ekki að leita að slíkum,“ segir Eiríkur.
Hann bætir við að ef einhver skyldi eiga hlutabréf frá flugfélögunum hefði hann áhuga á því að heyra frá þeim.