Lokakeppni Gulleggsins, stærstu og elstu frumkvöðlakeppni Íslands, á vegum Icelandic Startups fór fram í hátíðarsal Grósku föstudaginn 4. febrúar. Mikil spenna var í loftinu allan föstudaginn hjá teymunum tíu, en konur hafa aldrei verið jafn margar í topp þremur sætunum í Gullegginu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-. Iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, tilkynnti um þrjú efstu sætin en Landsbankinn veitti verðlaunaféð.
Bergur Ebbi opnaði keppnina í beinni útsendingu á Stöð 2 Vísi úr hátíðarsal Grósku við mikinn fögnuð viðstaddra. Bakhjarlar Gulleggsins, aðrir boðgestir í sal og almenningur sem horfðu á í beinni útsendingu um land allt hlýddu hugfangin á hugmyndir allra keppenda og var andrúmsloftið spennuþrungið þegar niðurstöður um þrjú efstu sætin voru tilkynnt.
Lilja app hreppti þriðja sætið og í teyminu eru þær Ingunn Henriksen og Árdís Rut Einarsdóttir. Hlaut appið styrk frá Verði tryggingum og Huawei. Appið er bjargráður þolenda ofbeldis til bættrar lagalegrar og félagslegrar stöðu. Það er til dæmis í beinu sambandi við 112 Neyðarlínuna og getur á margvíslegan hátt verndað þolendur og hjálpað þeirra réttarstöðu.
Annað sætið hlaut SEIFER og eru þau Guðrún Inga Marinósdóttir, Davíð Anderson og Bjarki Snorrason á bakvið hugmyndina. SEIFER vinnur að því að hanna og þróa íþróttabúnað, ásamt gagnagrunni, sem er nýttur í rauntíma mælingar og gagnasöfnun búnaðarins er hægt að endurbæta bataferli og viðbragðsáætlanir gegn heilahristingum í íþróttum. SEIFER hlaut jafnframt styrk frá KPMG.
Fyrsta sætið hlaut TVÍK en frumkvöðlarnir eru þau Gamithra Marga, Safa Jemai og Atli Jasonarson. TVÍK, eða tæknivæddi íslenskukennarinn, er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styðst við nýjustu máltækniaðferðir til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að læra íslensku.
Fjölmörg starfandi fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni og má þar m.a. nefna Meniga, Controlant, Karolina Fund og Solid Clouds. Af þeim 155 hugmyndum sem komu inn í ár, þar af yfir áttatíu kynningar sem voru sendar inn í lokakeppnina, voru tíu valdar til að keppa um Gulleggið 2022 þann 4. febrúar síðastliðinn.