Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir mynstur gjafagjörninga við úthlutun uppbyggingarheimilda í borginni. Dæmin hrannist upp en í færslu á Facebook síðu sinni nefnir hún samning borgarinnar við RÚV frá árinu 2015, í stjórnartíð Dags B. Eggertssonar, um uppbyggingarheimildir fyrir íbúðahúsnæði í Efstaleiti sem eitt dæmi. Hildur segir þann samning hafa falið í sér að ekki væru greidd hefðbundin gjöld fyrir.

Tilefni skrifa Hildar eru vafalaust umfjöllun Kastljóssins um samning borgarinnar við olíufélögin sem vakið hefur mikla athygli.

Hildur bendir á að lóðinni hafi verið úthlutað árið 1990 en forsenda samningsins hafi verið sú að þar risi hús fyrir útvarpsrekstur. Um árabil hafi það þó legið ljóst fyrir að engin slík uppbygging yrði á lóðinni og forsendur samningsins því brostnar.

„Árið 2019 gerði Ríkisendurskoðun athugasemdir við gjafagjörninginn í skýrslu sinni og varpaði fram þeirri vangaveltu hvort með gjöfinni hafi Reykjavíkurborg veitt Ríkisútvarpinu opinbera aðstoð, enda hafi lóðagjöfin bjargað ríkismiðlinum frá greiðsluþroti,“ skrifar Hildur.

Lóðasalan hafi skilað RÚV nærri 1,5 milljörðum króna í ráðstöfunarfé árið 2015, en það séu tæpir 2,2 milljarðar að núvirði. Lóðin hafi réttilega átt að vera í höndum borgarinnar og tekjur af lóðasölu þar með réttilega átt að renna í borgarsjóð.

Í ljósi þeirra takmarkana sem ríkisaðstoðarreglur setja á fjármögnun ríkisstyrktra fjölmiðla sé atburðarrásin athyglisverð og varhugaverð. „Þær tekjutuskur sem ríkismiðillinn vindur eru nægilega margar, svo ekki þurfi samhliða að ganga á verðmæti í eigu borgarinnar.“

Degi eftir útgáfu skýrslunnar kveðst Hildur hafa lagt til við borgarráð að lóðasamningnum yrði vísað til innri endurskoðunar. Ærin ástæða væri til að fara ofan í saumana á málinu. Tillagan hafi ekki verið afgreidd fyrr en tveimur árum síðar, eftir töluverðan þrýsting, í árslok 2021. „Meirihlutinn felldi tillöguna.“

Í ljósi fyrrnefnds sé morgunljóst að hér hafi málast upp mynstur gjafagjörninga við úthlutun byggingarheimilda í borginni.