Örþörungafyrirtækið Mýsköpun hefur lokið við 50 milljóna króna fjármögnun. Núverandi hluthafar tóku þátt í fjármögnuninni og var hún í formi breytanlegs skuldabréfs. Fjármögnuninni er ætlað að fjármagna rekstur komandi árs.

Mýsköpun er líftæknifyrirtæki staðsett í Mývatnssveit og hefur einangrað ýmsa hagnýta örþörunga úr Mývatni.

Fjármögnunin var kynnt á hluthafafundi í nóvember þar sem áform næsta árs voru kynnt en fyrirtækið lýsir skrefinu sem eins konar brúarfjármögnun.

„Það er afar ánægjulegt er að finna fyrir trausti hluthafa og að fjármögnunin kemur til með að hraða framgangi félagsins og efla bæði rannsóknir þess og framleiðslu. Lögð verður aukin áhersla á framleiðslu verðmætra litar- og andoxunarefna, en eftirspurn eftir slíkum afurðum eykst stöðugt,“ segir Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Mýsköpunar.

Á árinu 2024 jók Mýsköpun framleiðslugetu sína með gangsetningu hátækniræktunarbúnaðar fyrir örþörungaframleiðslu fyrirtækisins. Innleiðing ræktunarkerfisins gerir fyrirtækinu kleift að gera þær tilraunir sem nauðsynlegar eru til að auka verðmæti framleiðslu fyrirtækisins.