Fjölmiðlafyrirtækið N4 ehf. hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Landsbyggðarmiðillinn segir í tilkynningu á vef sínum að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins hafi ekki borið árangur.
„Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.“
N4 hefur framleitt sjónvarpsefni undanfarin 15 ár. Fyrirtækið segir að reksturinn hafi byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi.
„Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni.“
Mikið var fjallað um N4 í lok síðasta árs eftir að fjölmiðillinn óskaði eftir auknum styrk frá ríkissjóði. Meirihluti fjárlaganefndar féllst upphaflega á beiðnina og lagði til að fjölmiðlar á landsbyggðinni sem framleiða eigið sjónvarpsefni fengju 100 milljóna króna styrk. Við endurskoðun á reglum um fjölmiðlastyrki var hætt við þessa sérúthlutun og fjárhæðinni fremur bætt við almenna fjölmiðlastyrkjakerfið.