Hlutabréf Iceland Seafood hækkuðu um 3,77% í Kauphöllinni í dag og nam velta með bréf félagsins 23 milljónum króna.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að hlutabréfaverð Iceland Seafood hafði hækkað um 5% skömmu eftir hádegi og endaði gengið í 5,5 krónum. Í gærkvöldi tilkynnti að Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International (IS), muni láta af störfum eftir að hafa gegnt stöðunni í fimm ár.

Ægir Páll Friðbertsson hefur þá verið ráðinn nýr forstjóri Iceland Seafood.

Alvotech hækkaði einnig um 1,21% og stendur hlutabréfaverð félagsins nú í 1.250 krónum á hvern hlut. Greint var frá því í morgun að Alvotech, í samstarfi við Fuji Pharma, hafi fengið markaðsleyfi á lyfjatæknihliðstæðu Stelara í Japan.

Hagar hækkuðu um 2,24%, Eimskip um 0,82% og Ölgerðin um 0,41%.

Vátryggingafélag Íslands lækkaði hins vegar um 3,85% með 51 milljóna króna veltu. Dagslokagengi VÍS endaði í 15 krónum á hvern hlut og hefur ekki verið lægra síðan í mars 2021.

Gengi Icelandair hélt einnig áfram að lækka og stendur í dag í 1,45 krónu eftir 3,33% lækkun. Hlutabréf Icelandair hafa ekki verið lægri síðan í júní 2021.

Kvika lækkaði um 2,56%, Arion lækkaði um 1,07% og Marel lækkaði um 0,9%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,6% og er hlutabréfaverð hennar nú 2.276 krónur á hvern hlut.