Samkvæmt greinargerð fagsviða með árshlutareikningi Reykjavíkurborgar á fyrstu níu mánuðum ársins var hallarekstur í nær öllum leikskólum borgarinnar.
Rekstrarniðurstaða leikskóla borgarinnar eins og hún birtist í uppgjöri sýnir hallarekstur sem nemur 12,4% eða rúmum 1,7 milljörðum króna á tímabilinu janúar til september.
Að langstærstum hluta er um launagreiðslur að ræða sem voru 1,4 milljörðum umfram fjárheimildir en til lækkunar koma 1,2 milljarðar sem vistaðir eru á sameiginlegum kostnaði sem ætlaður er nýju leikskólalíkani og 225 milljónir vegna annars rekstrarkostnaðar, samtals 1,5 milljarðar króna.
Tveir leikskólar skila afgangi
Ef rýnt er í töflu um rekstur borgarrekinna leikskóla eru aðeins tveir leikskólar innan fjárheimilda á fyrstu níu mánuðum ársins en það er Grandaborg sem er 9 milljónum króna innan fjárheimilda (-7,4 frávik), og Nes (Hamrar) sem er 5 milljónum innan fjárheimilda (-2,5% frávik).
Seljaborg, Funaborg og Brekkuborg eru á núlli á meðan allir aðrir leikskólar borgarinnar eru að fara umfram fjárheimildir.
Umframkeyrslan er mest í Laugasól sem er 101 milljón umfram fjárheimildir eða um 40,1%. Sólborg kemur þar á eftir með 77 milljóna umframkeyrslu eða um 34,4% umfram fjárheimildir.
Samkvæmt fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar hefur rekstur leikskóla í borginni verið í „verulegum halla“ frá hausti 2020.
„Ætla má að það skýrist af ýmsum samverkandi þáttum s.s. áhrifum af styttingu vinnuvikunnar, fjölgun undirbúningstíma, auknum veikindum og fækkun barna í umsjón hvers starfsmanns,” segir í ábendingum fjármálasviðs borgarinnar.
Afleysing vegna langtímaveikinda í borgarreknum leikskóla fór einnig fram úr fjárheimildum og nam umframkeyrslan 155 milljónum króna á níu mánuðum.
Heildarveikindahlutfall leikskóla á fyrstu níu mánuðum ársins nam um 8,7%. Til samanburðar voru skráð veikindi sem hlutfall af viðveru 7,1% hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar á sama tímabili. Hjá hinu opinbera er almennt veikindahlutfall 5,7% og aðeins 3,1% á almennum vinnumarkaði.
Samkvæmt ábendingum frá Fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar hefur borgin ítrekað þurft að taka leikskólahúsnæði úr rekstri vegna rakaskemmda á sama tíma og áhersla hefur verið lögð á fjölgun leikskólaplássa til að takast á við biðlista.
Að mati fjármálasviðs borgarinnar hefur þetta haft áhrif á getu leikskólasviðsins til að ná niður biðlistum í samræmi við væntingar.
„Þá hefur ekki tekist að fullmanna leikskóla borgarinnar sem jafnframt hefur leitt til þess að gildandi rekstrarleyfi eru ekki fullnýtt. Mikilvægt er að áætlun um uppbyggingu og fjölgun leikskólarýma taki mið af þeirri stöðu,“ segir í ábendingum fjármálasviðs.
Til samanburðar nam halli borgarrekinna grunnskóla um 50 milljónum króna. Í heildina voru 18 grunnskólar með afgang en aðrir með halla.
Fjármála- og áhættustýringarsvið segir þetta vera jákvæða þróun sem rekja megi til innleiðingar grunnskólalíkansins.
Þegar horft er á rekstur Skóla- og frístundarsvið eftir sviðshlutum sést að halli sviðsisn vorur rúmir 2 milljarðar á níu mánuðum ársins.
Halli af rekstri grunn‐ og leikskóla var 2,3 milljarðar en rekstur annarra liða var samtals 256 milljónum innan fjárheimilda.
Útgjöld langt umfram fjölgun barna
Á árinu 2023 voru borgarreknir leikskólar 2,5 milljörðum yfir fjárheimildum eða 14,3%. Aðeins tveir leikskólar skiluðu afgangi árið 2023 en aðrir voru með halla.
Útgjöld á barn í leikskólum borgarinnar hækkuðu umtalsvert á föstu verðlagi frá árinu 2019 til loka árs 2023 eða um 10,8%. Kostnaðarþátttaka foreldra var 8,4% á árinu 2019 en var aðeins 7,2% árið 2023.
Ef þróun skóla- og frístundasviðs er skoðuð má sjá að frá árinu 2018 hafa útgjöld til sviðsins aukist um 50% frá árinu 2018 og farið úr 49,4 milljörðum í 74,2 milljarða í fyrra.
Samsvarar það um 14,5% hækkun á föstu verðlagi. Starfsmönnum hefur á sama tímabili fjölgað úr 4.375 í 4.865 sem samsvarar um rúmlega 11% fjölgun á fimm árum.
Á tímabilinu 2018 til 2023 fór nemendafjöldi í grunnskólum borgarinnar úr 15.097 í 15.654 sem samsvarar um 3,7% aukningu.
Fjöldi leikskólabarna fór úr 6.464 í 6.869 sem samsvarar um 6,27% aukningu.