Sam­kvæmt greinar­gerð fag­sviða með árs­hluta­reikningi Reykja­víkur­borgar á fyrstu níu mánuðum ársins var halla­rekstur í nær öllum leikskólum borgarinnar.

Rekstrarniður­staða leikskóla borgarinnar eins og hún birtist í upp­gjöri sýnir halla­rekstur sem nemur 12,4% eða rúmum 1,7 milljörðum króna á tíma­bilinu janúar til septem­ber.

Að langstærstum hluta er um launa­greiðslur að ræða sem voru 1,4 milljörðum um­fram fjár­heimildir en til lækkunar koma 1,2 milljarðar sem vistaðir eru á sam­eigin­legum kostnaði sem ætlaður er nýju leikskóla­líkani og 225 milljónir vegna annars rekstrar­kostnaðar, sam­tals 1,5 milljarðar króna.

Tveir leikskólar skila afgangi

Ef rýnt er í töflu um rekstur borgar­rekinna leikskóla eru aðeins tveir leikskólar innan fjár­heimilda á fyrstu níu mánuðum ársins en það er Granda­borg sem er 9 milljónum króna innan fjár­heimilda (-7,4 frávik), og Nes (Hamrar) sem er 5 milljónum innan fjár­heimilda (-2,5% frávik).

Selja­borg, Funa­borg og Brekku­borg eru á núlli á meðan allir aðrir leikskólar borgarinnar eru að fara um­fram fjár­heimildir.

Um­fram­keyrslan er mest í Laugasól sem er 101 milljón um­fram fjár­heimildir eða um 40,1%. Sól­borg kemur þar á eftir með 77 milljóna um­fram­keyrslu eða um 34,4% um­fram fjár­heimildir.

Sam­kvæmt fjár­mála- og áhættustýringar­sviði borgarinnar hefur rekstur leikskóla í borginni verið í „veru­legum halla“ frá hausti 2020.

„Ætla má að það skýrist af ýmsum sam­verkandi þáttum s.s. áhrifum af styttingu vinnu­vikunnar, fjölgun undir­búningstíma, auknum veikindum og fækkun barna í um­sjón hvers starfs­manns,” segir í ábendingum fjár­mála­sviðs borgarinnar.

Af­leysing vegna langtíma­veikinda í borgar­reknum leikskóla fór einnig fram úr fjár­heimildum og nam um­fram­keyrslan 155 milljónum króna á níu mánuðum.

Heildarveikindahlutfall leikskóla á fyrstu níu mánuðum ársins nam um 8,7%. Til samanburðar voru skráð veikindi sem hlutfall af viðveru 7,1% hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar á sama tímabili. Hjá hinu opinbera er almennt veikindahlutfall 5,7% og aðeins 3,1% á almennum vinnumarkaði.

Sam­kvæmt ábendingum frá Fjár­mála- og áhættustýringar­sviði Reykja­víkur­borgar hefur borgin ítrekað þurft að taka leikskóla­húsnæði úr rekstri vegna raka­skemmda á sama tíma og áhersla hefur verið lögð á fjölgun leikskóla­plássa til að takast á við biðlista.

Að mati fjár­mála­sviðs borgarinnar hefur þetta haft áhrif á getu leikskóla­sviðsins til að ná niður biðlistum í samræmi við væntingar.

„Þá hefur ekki tekist að full­manna leikskóla borgarinnar sem jafn­framt hefur leitt til þess að gildandi rekstrar­leyfi eru ekki fullnýtt. Mikilvægt er að áætlun um upp­byggingu og fjölgun leikskólarýma taki mið af þeirri stöðu,“ segir í ábendingum fjármálasviðs.

Til saman­burðar nam halli borgar­rekinna grunnskóla um 50 milljónum króna. Í heildina voru 18 grunnskólar með af­gang en aðrir með halla.

Fjár­mála- og áhættustýringar­svið segir þetta vera jákvæða þróun sem rekja megi til inn­leiðingar grunnskóla­líkansins.

Þegar horft er á rekstur Skóla- og frístundarsvið eftir sviðshlutum sést að halli sviðsisn vorur rúmir 2 milljarðar á níu mánuðum ársins.

Halli af rekstri grunn‐ og leikskóla var 2,3 milljarðar en rekstur annarra liða var samtals 256 milljónum innan fjárheimilda.

Útgjöld langt umfram fjölgun barna

Á árinu 2023 voru borgar­reknir leikskólar 2,5 milljörðum yfir fjár­heimildum eða 14,3%. Aðeins tveir leikskólar skiluðu af­gangi árið 2023 en aðrir voru með halla.

Út­gjöld á barn í leikskólum borgarinnar hækkuðu um­tals­vert á föstu verðlagi frá árinu 2019 til loka árs 2023 eða um 10,8%. Kostnaðarþátt­taka for­eldra var 8,4% á árinu 2019 en var aðeins 7,2% árið 2023.

Ef þróun skóla- og frí­stunda­sviðs er skoðuð má sjá að frá árinu 2018 hafa út­gjöld til sviðsins aukist um 50% frá árinu 2018 og farið úr 49,4 milljörðum í 74,2 milljarða í fyrra.

Sam­svarar það um 14,5% hækkun á föstu verðlagi. Starfsmönnum hefur á sama tíma­bili fjölgað úr 4.375 í 4.865 sem sam­svarar um rúm­lega 11% fjölgun á fimm árum.

Á tíma­bilinu 2018 til 2023 fór nem­enda­fjöldi í grunnskólum borgarinnar úr 15.097 í 15.654 sem sam­svarar um 3,7% aukningu.

Fjöldi leikskóla­barna fór úr 6.464 í 6.869 sem sam­svarar um 6,27% aukningu.