Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 13,9 milljörðum króna í dag. Þar af var tæplega 11,2 milljarða viðskipti við lokun Kauphallarinnar.

Veltuna má einkum rekja til lokunaruppboðs en á mánudaginn tekur gildi aukin vigt fimmtán félaga á aðalmarkaðnum í vísitölum FTSE Russell vegna uppfærslu Íslands í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets).

Fyrir rúmu ári síðan var tilkynnt um að alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell hefði ákveðið að færa Ísland upp um flokk. Vigt íslenska markaðarins í vísitölunum var færð upp í þremur skrefum; hið fyrsta var þann 19. september sl., annað skrefið var 19. desember, og síðasta skrefið verður á mánudaginn næsta, 20. mars.

Í aðdraganda hvers skrefs fer fram umfangsmikil sala til erlendra vísitölusjóða. Við fyrsta skrefið í september var sem dæmi 14 milljarða velta í 337 viðskiptum sem áttu sér stað á aðeins hálfri mínútu í svokölluðu lokunaruppboði. Fyrir annað skrefið var tæplega 14 milljarða velta á lokamínútunum fyrir lokun markaðarins.

„Vísitölusjóðir vilja ekki bara eiga viðskipti á síðasta degi fyrir uppfærsluna, heldur vilja þeir helst eiga viðskipti í lokunaruppboðinu og tryggja sér þannig lokaverðið á markaðnum því það minnkar frávik frá vísitöluviðmiðinu,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í viðtali við Viðskiptablaðið í kjölfar fyrstu uppfærslunnar.

Reitir og Ölgerðin hækka um meira en 5%

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,4% í dag. Reitir hækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 6,3% í nærri 700 milljóna veltu. Gengi Reita stendur nú í 84 krónum á hlut.

Ölgerðin, sem sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun Kauphallarinnar á miðvikudaginn, hækkaði um 5,5% í 350 milljóna viðskiptum. Gengi Ölgerðarinnar hækkaði um 9% í dag og í gær.

Mesta veltan var með hlutabréf Marels og Arion banka. Viðskipti með bréf Marels hljóðuðu upp á 3,1 milljarð króna en gengi félagsins hækkaði um 2,2% og stendur nú í 556 krónum. Hlutabréfaverð Arion banka hækkaði um 1,9% í 2,6 milljarða veltu.

Gengi Íslandsbanka lækkaði um 1,8% í 1,6 milljarða veltu og stendur nú í 120,6 krónum á hlut samanborið við 122,8 krónur við lokun markaða í gær. Lækkun bankans má rekja til þess að í dag er arðleysisdagur hjá bankanum sem ákvað að greiða út arð sem nemur 6,15 krónur á hlut vegna rekstrarársins 2022. Rétt er að benda á að einnig var arðleysisdagur hjá VÍS sem lækkaði um 2,8%.

Félög á lista FTSE Russell

Félag Stærðarflokkun
Arion banki Stórt
Íslandsbanki Stórt
Marel Stórt
Eimskip Meðalstórt
Festi Meðalstórt
Hagar Meðalstórt
Icelandair Meðalstórt
Kvika banki Meðalstórt
Reitir Meðalstórt
Síminn Meðalstórt
Origo Lítið
Sjóvá Lítið
VÍS Lítið
Iceland Seafood Örlítið
Sýn Örlítið