Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samtals um 83,5 milljarða króna á síðasta ári. Samanlagður hagnaður bankanna jókst um 16 milljarða frá árinu 2022 eða um nærri fjórðung.

Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samtals um 83,5 milljarða króna á síðasta ári. Samanlagður hagnaður bankanna jókst um 16 milljarða frá árinu 2022 eða um nærri fjórðung.

Samanlagður hagnaður hefur aðeins einu sinni verið meiri frá fjármálakreppunni árið 2008 en það var árið 2015. Það ár nam samanlagður hagnaður bankanna tæplega 107 milljörðum króna. Þess ber þó að geta að það ár stóð Arion banki undir nærri helmingi hagnaðarins. Munaði þar mest um að í janúar 2016 seldi dótturfélag bankans allan hlut sinn í Bakkavör Group, sem varð til þess að eignarhlutinn var endurmetinn í lok árs 2015 og virði hans jókst um nærri 21 milljarð króna. Sú fjárhæð var svo færð til bókar á ársreikningi 2015 sem hlutdeild í hagnaði hlutadeildarfélaga.

Þegar horft er aftur til ársins 2009 er árið 2023 eins og fyrr segir það næst besta hvað samanlagðan hagnað varðar. Samanlagður hagnaður bankanna á tímabilinu er að meðaltali rúmlega 60 milljarðar króna en tæplega 64,5 milljarðar að miðgildi.

Frá árinu 2009 hafa stóru viðskiptabankarnir þrír alls skilað rúmlega 902 milljarða króna hagnaði. Landsbankinn hefur skilað mestum samanlögðum hagnaði á tímabilinu, eða tæplega 342,5 milljörðum króna. Arion banki hefur skilað tæplega 282,5 milljarða króna hagnaði og Íslandsbanki rúmlega 277 milljörðum.

Af bönkunum þremur var það Landsbankinn sem skilaði mestum hagnaði í fyrra, eða 33,2 milljörðum króna. Arion banki fylgdi á eftir Landsbankanum með 25,7 milljarða hagnað og Íslandsbanki skilaði svo 24,6 milljarða króna hagnaði. Árið 2022 var staðan hins vegar önnur en þá skilaði Arion banki mestum hagnaði, tæplega 26 milljörðum króna. Hagnaður Íslandsbanka var þó litlu minni, eða um 1,4 milljörðum lægri. Þetta ár rak Landsbankinn svo lestina með tæplega 17 milljarða króna hagnað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.