Sala ríkisins á 42,5% hlut í Íslandsbanka er næst stærsta einkavæðing sem farið hefur fram í sögu þjóðarinnar í einu lagi. Útboðinu lauk í gær og var söluverðið 90,5 milljarðar króna en eftirspurnin var 190 milljarðar króna.

Einkavæðingin á bankanum öllum var í þremur hlutum. Frumskráning fór fram í júní 2021 en þá var 35% hlutur seldur í bankanum fyrir 55,3 milljarða króna. Þá var 22,5% hlutur seldur í mars 2022 á 52,7 milljarða króna. Í gær var 42,5% hlutur seldur fyrir 90,5 milljarða króna.

Samanlagt er þetta stærsta einkavæðing á ríkisfyrirtæki á Íslandi og nemur söluandvirðið samanlagt 224,7 milljörðum króna á núverandi verðlagi.

Íslandsbanki hf. tekinn til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 22. júní 2021. Birna Einarsdóttir þáverandi bankastjóri og Magnús Harðarson þáverandi forstjóri kauphallarinnar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Ríkið eignaðist Íslandsbanka að fullu árið 2016 sem hluta af stöðugleikaframlagi slitabús Glitnis hf. Þetta framlag var hluti af samkomulagi við kröfuhafa Glitnis til að forðast álagningu stöðugleikaskatts og stuðla að losun fjármagnshafta.

Við framsalið fékk ríkissjóður 95% hlut í Íslandsbanka, en átti fyrir 5% hlut. Var 95% hluturinn metinn á 184,8 milljarða króna.

Þetta mat byggði á bókfærðu eigin fé bankans á þeim tíma og var þessi aðferð notuð til að ákvarða virði framseldra eigna í stöðugleikaframlaginu.

Stærsta einstaka salan

Landssími Íslands hf. var einkavæddur í júlí 2005, en sala Símans var stærsta einstaka sala á hlutabréfum sem ríkið hefur selt frá sér.

Árið 2004 var hafinn undirbúningur að sölu á hlut ríkisins Landssímanum, og í árslok var samið við Morgan Stanley í London um fjármálalega ráðgjöf og umsjón sölunnar. Fyrri hluta árs 2005 var ákveðið að allur hlutur ríkisins upp á 98,6% yrði seldur einum hópi fjárfesta í einu lagi.

Tilboðin þrjú, sem bárust í hlut ríkisins í Símanum, voru öll gild. Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar opnar tilboðin í bankann þann 28. júlí 2005.
© Mbl (Mbl)

Þá var ákveðið að enginn einn fjárfestir skyldi eignast meira en 45% af heildarhlutafé í fyrirtækinu fram til ársloka 2007, og að 30% hlutafjár að lágmarki yrði boðið almenningi til kaups og félagið skráð í Kauphöll.

Skipti ehf. fékk samþykkt tilboð í félagið upp á 66,7 milljarða króna, eða 175 milljarða króna að núvirði, en um var að ræða hæsta tilboðið. Að Skipti-hópnum stóðu átta aðilar, þar af var Exista með 45% hlut og Kaupþing banki með 30% hlut.