Javier Milei, forseti Argentínu, hefur verið að blása lífi í efnahag landsins með því að lækka eða afnema tolla en Argentína hefur lengi verið með lokað og verndað hagkerfi.
Sósíalíska stefna landsins í árara hefur valdið því að verð á alþjóðlegum vörum eins og alls kyns raftækjum eða loftsteikingarofnum (e. air fryer) er í engu samræmi við t.d. vestræn ríki.
Samkvæmt Financial Times eru þó breytingar í loftinu en íbúar landsins geta nú í fyrsta sinn pantað sér vörur frá Amazon.
Þá eru stórmarkaðir byrjaðir að selja innfluttar vörur og þar má nú finna þekkt vörumerki í hillunum sem getur verið allt frá Tide-þvottaefni yfir í ekvadorskan niðursoðinn túnfisk.
Hins vegar hefur tollastefna landsins síðustu áratugi valdið því að verðið á alþjóðlegum vörum er enn óviðráðanlegt fyrir heimamenn.
Samkvæmt netverslunarsíðum kostar loftsteikingarofn frá Black & Decker, sem selst á 100 dali í Bandaríkjunum, 289 dali í Argentínu.
Kjóll úr Zara sem kostar 25 dali í Bandaríkjunum er seldur á 67 dali þar í landi, en Apple iPhone 15, sem fæst á 799 dali í Bandaríkjunum, kostar 2.800 dali í Argentínu.
Á sama tíma eru meðallaun í Argentínu minna en fjórðungur af meðallaunum í Bandaríkjunum.
Argentínumenn kvarta einnig yfir því að innlend raftæki, föt og aðrar vörur, sem framleiðendur hafa verið varðir fyrir samkeppni og bera þungar skattaálögur, séu einnig allt of dýr.
„Allt er dýrt og gæðamunurinn er virkilega áberandi,“ segir Matías, 42 ára starfsmaður hjá sveitarfélagi í Buenos Aires í samtali við FT. „Ég styð argentínskan iðnað, en ekki á hvaða verði sem er.“
Argentína er að reyna ná vöruverði niður til að hraða fyrir hjöðnun verðbólgunnar sem er enn í þriggja stafa tölu um þessar mundir en af þeim sökum hefur ríkisstjórn Javier Milei lækkað tolla á tugum vara, frá bólukremi til duftkerja.
Stjórnin hefur einnig einfaldað ferla í tollgæslu Argentínu, þar á meðal afnumið reglu sem krafðist þess að fulltrúar innlendra framleiðenda samþykktu sumar innflutningsvörur frá erlendum keppinautum þeirra.
Auk þess hefur stjórn Milei þrefaldað árlegt hámark sem Argentínumenn mega panta vörur erlendis frá til einkanota, upp í 3.000 dali, og eru fyrstu 400 dalirnir undanþegnir tollum.
Amazon hóf í nóvember að bjóða upp á fría sendingu á sumum vörum frá bandarísku verslun sinni til Argentínu.
„Við erum að lækka tolla sem studdu við þá hrikalegu efnahagsstefnu að skipta innflutningi út fyrir innlenda framleiðslu,“ sagði Milei á viðburði í október. „Þetta hefur refsað öllu samfélaginu með lakari vörum og þjónustu á hærra verði, til hagsbóta fyrir einungis fámenna hópa.“
Þann 22. desember hætti stjórnin að innheimta almennan skatt upp á 7,5% á allar innfluttar vörur og 30% skatt á kortafærslur Argentínumanna erlendis.
Þessar breytingar Milei eru í andstöðu við það sem er að gerast í mörgum öðrum löndum.
Á undanförnum árum hafa Evrópuríki og Bandaríkin reist nýjar viðskiptahindranir til að vernda innlenda framleiðslu gegn ódýrum innflutningi frá Kína og víðar.
Argentísk framleiðslufyrirtæki vara við því að aukinn innflutningur geti haft eyðileggjandi áhrif á iðnað sem veitir nær fimmtungi vinnuafls atvinnu og hefur þegar orðið fyrir miklum áhrifum af efnahagskreppu landsins.
Framleiðsla dróst saman um 12,7% fyrstu níu mánuði ársins 2024 miðað við sama tímabil árið 2023.