Reykjavíkurborg hefur gert þjónustusamning við Strætó um að hefja akstur næturstrætó, eingöngu innan borgarinnar, á föstudaginn næsta, 24. febrúar næstkomandi.

„Borgin er með þessu að svara ákalli um bættar samgöngur í miðbænum um helgar en ekki náðist samstaða í stjórn Strætó um að hefja aftur akstur næturstrætó á höfuðborgarsvæðinu. Því bar Reykjavíkurborg fram tillögu fyrir stjórn Strætó um þjónustu fyrir íbúa borgarinnar og um að bjóða upp á næturstrætó sem eingöngu gengur í Reykjavík,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Strætó ákvað í október síðastliðnum að hætta akstri næturstrætó um helgar í ljósi fjárhagsstöðu félagsins og að farþegafjöldi stóðst ekki væntingar.

Stakt fargjald í næturstrætó verður 1.100 krónur en það jafngildir tvöföldu almennu fargjaldi. Aðeins verður hægt að greiða fyrir næturmiða í gegnum Klapp greiðslukerfið eða með reiðufé.

Næturstrætó ekur úr miðbæ Reykjavíkur á aðfaranóttum laugardags og sunnudags. Aðeins er hægt að taka næturstrætó á leið úr miðbænum en ekki til baka í átt að miðbænum.

Fjórar næturleiðir munu aka frá miðbænum og út í úthverfi Reykjavíkur, þ.e. Breiðholt, Úlfarsárdal, Norðlingaholt og Grafarvog.