Fjármálaráðuneytið mun birta opinberlega lista yfir hver og ein viðskipti í almenna hlutafjárútboðinu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, þar með talið kennitölur í þeim tilvikum sem fjárfestar hafa íslenska kennitölu, og nöfn endanlegra kaupenda.
„Áhersla er lögð á jafnræði og gagnsæi í söluferlinu sem verður tryggt m.a. með birtingu nafnalista allra kaupenda í kjölfar útboðs,“ segir á upplýsingavef ríkisins um útboðið.
Gengið „nokkuð langt“ í birtingu persónuupplýsinga
Ekki voru birtar upplýsingar um alla þátttakendur í frumútboði Íslandsbanka í júní 2021, sem var fyrsta skref ríkisins í sölu á eignarhlut sínum í bankanum. Níföld eftirspurn var í útboðinu og voru hluthafar bankans um 24 þúsund í kjölfar útboðsins.
Fjármálaráðuneytið birti eftirminnilega lista yfir alla 209 þátttakendur í lokuðu útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022 eftir gagnrýni á gagnsæi í söluferlinu. Ekki stóð til að birta þessar upplýsingar í aðdraganda þess útboðs.
Fyrirhuguð birting á nöfnum allra kaupenda í almenna hlutafjárútboðinu sem hófst í dag, þar sem sala til einstaklinga hefur forgang, er í samræmi við lög um ráðstöfun eignarhluta í Íslandsbanka sem tóku gildi sumarið 2024.
Í greinargerð stjórnarfrumvarpsins sagði fjármálaráðuneytið að „engum blöðum er um það að fletta að með ákvæðinu er gengið nokkuð langt í birtingu almennra persónuupplýsinga“.
Gæti dregið úr áhuga almennings
Arion banki varaði við því í umsögn um ofangreint frumvarp um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka að hugsanlegt væri að birting slíkra upplýsinga reynist til þess fallin að draga úr áhuga almennings á þátttöku í útboðinu, enda er venjan sú að birta takmarkaðar upplýsingar um þátttöku í útboðum. Einungis 20 stærstu hluthafar skráðra félaga séu nafngreindir á hluthafalistum viðkomandi félaga.
Fjármálaráðuneytið sagði í minnisblaði sem var birt í kjölfarið að ábending Arion væri „hárrétt“ og tók undir að um sé að ræða frávik frá því sem almennt er viðhaft á fjármálamarkaði.
„Mögulegt er að þessi fyrirætlan muni verða til þess að verð eignarhlutarins verði lægra en ella og er það sá fórnarkostnaður sem viðbótarskilyrði um gagnsæi getur haft í för með sér. Ef aukin áhersla væri á meginregluna um hagkvæmni þá kæmi þetta skilyrði mun síður til greina.“
Persónuvernd lagðist gegn birtingunni
Persónuvernd sendi inn umsögn um frumvarpið og lagði þar til að fallið yrði frá þeim áformum að birta opinberlega kennitölu allra þátttakenda í almennu hlutafjárútboði á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
„Leggur Persónuvernd því til að breytingar verði gerðar á umræddu frumvarpsákvæði á þá leið að ekki verði birtar upplýsingar um kaupendur að óverulegum eignarhlutum í Íslandsbanka. Við ákvörðun löggjafans um það hvenær eignarhlutar teljast óverulegir skal tilgangur birtingarinnar hafður að leiðarljósi.“
Persónuvernd sagði að þó tilgangur með birtingunni, þ.e. að gæta að gagnsæi, jafnræði og upplýsingagjöf til almennings, geti talist málefnalegur megi vinnsla persónuupplýsinga ekki fara umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.
„Telur Persónuvernd að svo umfangsmikil vinnsla persónuupplýsinga sem felst í opinberri birtingu lista yfir alla kaupendur að eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sé ekki nauðsynleg til að ná framangreindum tilgangi.“
Persónuvernd sagði að allajafna verði talið nægjanlegt til persónugreiningar að notast við nafn og lögheimili eða eftir atvikum fæðingardag. Jafnframt benti stofnunin á að í löndum, þar sem sambærileg persónuverndarlöggjöf er í gildi og hér, sé opinber birting auðkenna á borð við kennitölur jafnan talin óheimil.
Persónuvernd lagði því til að látið yrði nægja að birta nöfn kaupenda að stærri eignarhlutum í Íslandsbanka, og eftir atvikum fæðingardag þeirra.
Fjármálaráðuneytið sagði erfitt að fallast á þessa tillögu Persónuverndar en með því að einskorða birtingu upplýsinga úr útboðinu við kaupendur að umtalsverðum eignarhlutum væri löggjafinn „mögulega ekki að stíga eitt einasta skref í gagnsæisátt“.
Ráðuneytið sagði að við vinnslu málsins hafi vegist á hagsmunir sem tengjast persónuvernd og hámörkun verðs annars vegar og hagsmunir sem tengjast gagnsæi og trausti almennings hins vegar. Í frumvarpinu séu síðarnefndu hagsmunirnir taldir vega þyngra.
„Ráðuneytið minnir á að birtingu upplýsinga um kaupendur er ætlað að undirbyggja traust almennings til útboðs á eignarhlutum, m.a. að teknu tilliti til þess sem á undan er gengið við sölu á hlutum í fjármálafyrirtækjum á Íslandi.“
Ráðuneytið benti einnig á að hluthafaskrá sem sýnir hluthafa í bankanum hverju sinni sé aðgengileg öllum hluthöfum.