Blikksmiðja Guðmundar var stofnuð þann 1. apríl 1975 af Guðmundi Jens Hallgrímssyni, en starfsemin hefur alla tíð farið fram á Akranesi. Sævar Jónsson keypti félagið þann 5. janúar 2007, en hann hafði þá starfað hjá Guðmundi í rúm tíu ár.

Starfsemi fyrirtækisins hefur breyst umtalsvert í gegnum tíðina, en í dag er fyrirtækið fyrst og fremst að sjá um loftræstikerfi, bæði í byggingargeiranum og stóriðjunni.

„Við vorum fyrst um sinn mikið að þjónusta útgerðina og Elkem Ísland. Í dag erum við mest að vinna í byggingargeiranum, og þá aðallega uppsetningu á loftræstikerfum. Þá erum við einnig að sjá um loftræstikerfi fyrir stóriðjuna, nánar tiltekið fyrir Elkem og Norðurál. Við erum enn fremur í innflutningi á ýmsum hlutum sem þarf til að viðhalda loftræstikerfi,“ segir Sævar.

Hann bætir við að blikksmiðjur hafi flestallar þróast í þessa átt, úr því að vera nánast bara viðhaldsgrein yfir í að vera þjónustu- og tæknigrein. „Blikksmíðafyrirtæki eru að þróast í að verða tæknifyrirtæki sem starfa í nánum tengslum við aðrar iðngreinar, á borð við pípara og rafvirkja.“

Vinna að umbótum á blikksmiðjunáminu

Auk þess að vera eigandi Blikksmiðju Guðmundar er Sævar formaður Félags blikksmiðjueigenda á Íslandi, og raunar formaður sama félags á Norðurlöndum líka. Hann segir eitt helsta áherslumál félagsins hér heima að vinna að umbótum á blikksmíðanáminu og fá fleiri til að mennta sig í blikksmíði. Námið hafi verið óbreytt í 25 ár á sama tíma og greinin hafi breyst mikið.

„Við erum að fara í umbótaverkefni á námi í blikksmíði með styrk frá Framfarasjóði SI. Markmiðið er að námið samræmist betur þörfum fyrirtækjanna fyrir starfsfólk og nýliðun. Núverandi staða er óviðunandi.“

Hann segir að farið verði í að meta hvað greinin þarf og vill til samanburðar við það nám sem er í boði. Úr þeirri vinnu gæti komið tillaga að nýrri námskrá fyrir námið í blikksmíði sem fullnægi betur þörfum fyrirtækjanna.

Blikksmiðjufyrirtæki eru að þróast í að verða tæknifyrirtæki sem starfa í nánum tengslum við aðrar iðngreinar, á borð við pípara og rafvirkja.

Skorturinn hamli vexti fyrirtækjanna

Sævar segir blikksmíði eina af þeim greinum þar sem gríðarlegur skortur sé á starfsfólki. Skorturinn hamli beinlínis vexti fyrirtækjanna. „Við þurfum fyrst og fremst að horfa á að styrkja íslenskt iðnmenntakerfi svo að það mæti þörfum atvinnulífsins. Öflugt menntakerfi er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs.“

Spurður af hverju enn vanti fólk í iðnmenntun segir hann námsferil foreldra oft á tíðum hafa áhrif á námsákvarðanir barna þeirra. „Ef foreldrarnir eru ekki menntaðir á sviði iðnaðar eða þekkja jafnvel lítið til iðnmenntunar eru ef til vill minni líkur á að börn þeirra leggi stund á iðnnám.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.