Veitingastaðurinn Narfeyrarstofa við Aðalgötu 3 í Stykkishólmi er kominn á sölu en um er að ræða 316 fermetra landsþekkt veitingahús í hjarta bæjarins. Kaupverð hefur ekki verið sett á húsið en Trausti fasteignasala, sem fer með söluna, hefur óskað eftir tilboðum.
Talið er að húsið hafi verið reist árið 1906 fyrir Málfríði Möller sem var þá ekkja Möllers apótekara. Guðmundur Jónasson frá Narfeyri eignaðist húsið í kringum 1920.
Veitingarekstur hófst síðan í húsinu árið 2000 og fékk það þá nafnið Narfeyrarstofa. Ári seinna keyptu Sæþór H. Þorbergsson matreiðslumaður og Steinunn Helgadóttir Narfeyrarstofu og gerðu að veitingahúsi á báðum hæðum.
Árin 2011-2015 ráku Guðbrandur Gunnar matreiðslumaður og Selma Rut veitingastjóri veitingastaðinn þar til Sæþór H. Þorbergsson og Steinunn Helgadóttir tóku aftur við rekstrinum í desember 2015.
Fyrir nokkrum árum var ráðist í miklar framkvæmdir við húsið þegar kjallarinn var grafinn út, dýpkaður og þar innréttuð vínstúka og móttaka fyrir gesti veitingahússins og við það fjölgaði birtum fermetrum í kjallaranum um rúmlega 90 fermetra.
Á aðalhæð hússins er alrými og sæti fyrir 32 gesti en efri hæðin býður upp á sæti fyrir allt að 42 einstaklinga, með möguleika á að koma fyrir 55 manns. Þar má einnig finna útsýni út á Breiðafjörðinn.