Nasdaq hefur ákveðið að fara í harðar aðgerðir gegn smáaurabréfum (e. penny stocks) en kauphöllin hefur verið harðlega gagnrýnd upp á síðkastið vegna fjölda skráðra félaga þar sem gengið er undir einum dal.
Samkvæmt The Wall Street Journal munu aðgerðirnar óhjákvæmilega leiða til afskráningar fjölda fyrirtækja.
Smáraurabréf hafa aldrei verið fleiri í Bandaríkjunum en dagslokagengi 509 félaga var undir einum dal í gær. Af þeim voru 421 skráð á Nasdaq. Til samanburðar voru skráð félög sem teljast smáaurabréf færri en 12 árið 2021.
Sérhæfð yfirtökufélög, sem sækja fjármagn við skráningu á markað áður en leitað er að óskráðu fyrirtæki til að sameinast, eru sögð bera ábyrgð á aukningunni en fjölmörg félög hafa farið bakdyraleiðina á markað með slíkri sameiningu.
Samkvæmt núverandi reglum Nasdaq fá fyrirtæki viðvörun þegar gengið hefur verið undir einum dal í meira en 30 daga. Fyrirtækin fá þá 180 daga til að ná genginu aftur upp en þau geta í kjölfarið sótt um um 180 daga til viðbótar.
Ef þeim tekst ekki að ná genginu upp á þessum 360 dögum verða þau afskráð en fyrirtæki geta þó kært þá ákvörðun til að halda sér enn lengur á markaði.
Flest félög ráðast í öfuga skiptingu hluta (e. reverse stock split) til þess að koma sér undan afskráningu. Um er að ræða fækkun á útistandandi hlutum en skiptingin hefur engin áhrif á bókfært verð félaga né stöðu hlutafjár þeirra þó að nafnverð hækki.
Í fyrra réðust 495 fyrirtæki í öfuga skiptingu hluta en þau voru 159 árið 2022.
Samkvæmt nýju reglum Nasdaq verða félög afskráð þegar 360 dögunum lýkur. Félög geta enn kært ákvörðun Kauphallarinnar en þau verða ekki á markaði á meðan það mál er rekið fyrir sérstökum dómstól.
Þá leggur kauphöllin til að hægt verði að afskrá félög sem hafa ráðist í öfuga skiptingu hluta og gengið fer aftur undir einn dal á innan við ári. Ef félagið kærir þá ákvörðun fær það 180 daga til viðbótar á markaði meðan leyst er úr kærunni.
Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna þarf að samþykkja báðar reglubreytingarnar en Nasdaq sendi inn umsókn sína í gær.
Talsmenn fjárfestaverndar segja breytingarnar skref í rétta átt en telja þörf á enn fleiri breytingum.