Nathan & Olsen hefur gengið frá kaupum á völdum vörumerkjum Tefélagins ehf., sem hefur undir merkjum Akkúrat sérhæft sig í innflutningi og markaðssetningu á nýstárlegum og vönduðum drykkjum á síðustu árum.
Meðal vörumerkja Tefélagsins eru A.C. Perchs, Sproud og áfengislausu drykkirnir Copenhagen Sparkling Tea, Oddbird, Lucky Saint. Félagið segir áfengislausa valkosti hafa notið vaxandi vinsælda á Íslandi undanfarin ár.
Nathan & Olsen segja kaupin lið í að styrkja vöruframboð og framtíðarstefnu félagsins, sérstaklega með tilliti til ört vaxandi áhuga á áfengislausum drykkjum.
„Þeir eru mikilvæg viðbót við vöruúrval fyrirtækisins og Nathan & Olsen sér þar spennandi tækifæri til vaxtar og nýsköpunar, ekki síst á veitingamarkaði þar sem Ekran systurfélag Nathan & Olsen, mun annast sölu og dreifingu.“
Sólrún María Reginsdóttir, stofnandi Akkúrat, gengur til liðs við Nathan & Olsen sem vöru- og viðskiptastjóri. Hún mun áfram leiða vöxt þeirra vörumerkja sem hún hefur komið á kortið hér á landi.
„Ég er mjög spennt fyrir því sem framundan er og fyrir því að halda áfram að þróa vörumerkin sem ég hef byggt upp, nú sem hluti af öflugu teymi Nathan & Olsen og Ekrunnar,“ segir Sólrún María.
„Markmið mitt frá upphafi hefur verið að fjölga áfengislausum valkostum alls staðar þar sem fólk kemur saman. Þetta eru metnaðarfull fyrirtæki með sterkan grunn og þessi samstaða mun án efa veita okkur enn fleiri tækifæri, bæði hvað varðar dreifingu og markaðssetningu.“
„Við höfum fylgst með vörumerkjum Tefélagsins vaxa undanfarin ár og erum spennt fyrir því að sameina krafta okkar og Sólrúnar,“ segir Arnar Baxter, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen.
„Að bæta leiðandi vörumerkjum áfengislausra drykkja við vöruúrvalið eflir starfsemi okkar enn frekar og við sjáum mikla möguleika á áframhaldandi vexti á þessum markaði.“
