Yfir tveggja og hálfs árs tímabil fjárhagslegrar endurskipulagningar Allrahanda GL (AGL), sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi, er loks að líða undir lok.
Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku þá staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um staðfestingu á nauðasamningi AGL. Kristmundur Einarsson, framkvæmdastjóri kröfuhafans E.T. ehf. sem fór fram á að nauðasamningum yrði hafnað, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að félagið uni niðurstöðu Landsréttar og hefði ekki sótt um kæruleyfi til Hæstaréttar.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður AGL, segir að félagið sé nú að undirbúa að ljúka uppgjöri við kröfuhafa og að sú vinna gæti teygt sig inn í næsta mánuð.
Nauðasamningur AGL felur í sér að lánardrottnum er boðin greiðsla á 30% krafna sinna. Samþykktar samningskröfur námu 900 milljónum og því stendur til að almennir kröfuhafar fái greitt um 276 milljónir.
Pac1501, móðurfélag Hópbíla, sem er í eigu framtakssjóðsins Horns III í stýringu Landsbréfa, tryggir AGL fjármögnun að fjárhæð 550 milljónir króna vegna nauðasamningsins. Fjármögnunin er liður í 830 milljóna króna kaupum félagsins á GL Iceland, dótturfélagi AGL, ásamt öllum bifreiðaflota AGL sem inniheldur 49 rútur.
Kaup Pac1501 á hluta rekstrar AGL hefur verið til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu frá lokum september en eftirlitið hefur frest til 10. mars til að ljúka rannsókninni sem er í fasa II. Ólíklegt verður þó að teljast að eftirlitið aðhafist vegna viðskiptanna en það heimilaði kaup Reykjavík Sightseeing, dótturfélags Pac1501, á AGL í árslok 2019. Umrædd viðskipti féllu upp fyrir í Covid-faraldrinum.
Þórir og Sigurdór Sigurðsson, sem eiga samtals 51% hlut í AGL á móti framtakssjóðnum Akri, munu að lokinni sölu AGL á GL Iceland segja sig frá starfsemi Gray Line á Íslandi. Inni í AGL verður áfram meirihluti í félaginu Hveradalir ehf. sem hyggst halda úti baðlóni í Stóradal á Hellisheiði.
Þá eiga Þórir og Sigurdór félagið Meiriháttar sem heldur úti verktakastarfsemi og rekur Hótel Varmaland, sem er skammt frá Borgarnesi.