Allir nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands voru þeirrar skoðunar á fundi 20.-21. mars að hækka þyrfti vexti bankans enn frekar og rætt var um hækkun á bilinu 0,75-1 prósenta, að því er segir í nýbirtri fundargerð. Allir nefndarmenn studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að hækka stýrivexti úr 6,5% í 7,5%.
„Að mati nefndarinnar væri nauðsynlegt að ná merkjanlegum árangri hratt í ljósi þess hve útbreidd verðbólga væri, verðbólguvæntingar háar og að stutt væri í næstu kjarasamninga. Taldi nefndin því aðkallandi að tryggja að verðbólga myndi hjaðna hratt og örugglega næstu misseri jafnvel þótt áhrif aðgerðanna á efnahagsumsvif yrðu umtalsverð.“
Þá taldi nefndin brýnt að sporna gegn annarrar umferðar áhrifum kostnaðarhækkana á verðlag „sem virtust nú þegar vera komin fram og tryggja að taumhald peningastefnunnar færi hratt vaxandi“.
Stórum hluta kostnaðarþrýstings velt beint út í verðlag
Í fundargerðinni kemur fram að nefndarmenn hafi verið sammála um að þær áhyggjur sem voru til staðar á febrúarfundi nefndarinnar um áhrif kjarasamninga og gengislækkunar krónunnar á verðbólgu í byrjun árs virtust hafa raungerst.
„Svo virtist sem stórum hluta af auknum kostnaðarþrýstingi hefði verið velt beint út í verðlag og hætta á að sú þróun héldi áfram á komandi mánuðum. Í ljósi þess hversu sterk almenn eftirspurn væri gæti það leitt til þess að lækkun olíu- og hrávöruverðs á heimsmarkaði frá því í fyrra ásamt lækkun flutningskostnaðar myndi síður skila sér í verðlækkun hér á landi.“
Nefndin ræddi einnig um að útlánavöxtur lánakerfisins til fyrirtækja væri enn að aukast þrátt fyrir vaxtahækkanir. Aftur var minnst á að útlit væri fyrir að aðhald fjárlaga í ár yrði minna en gert var ráð fyrir.
„Því taldi nefndin að svo virtist sem fáir þættir væru fyrir hendi sem drægju úr kraftinum í þjóðarbúskapnum um þessar mundir. Þó hefði hægt á umsvifum á húsnæðismarkaði og ljóst að aðgerðir bankans hefðu áhrif á markaðinn.“