Stórir vörubílar hafa verið burðarás bandaríska hagkerfisins í mörg ár en þeir eru jafnframt taldir vera nauðsyn fyrir flutning vara í landinu. Meira en 70% af vörum í Bandaríkjunum eru fluttar með vörubílum og 80% bandarískra samfélaga treysta á bílana fyrir vöruflutning.
Víðs vegar um Bandaríkin hafa fulltrúar og nefndir, eins og California Air Resources Board, gefið út reglugerðir til að neyða vöruflutningafyrirtæki til að bæta fleiri rafbílum við flota sinn. Róttækasta reglugerðin kveður einnig á um sölubann á dísilvörubílum eftir áratug.
Nebraska leiðir nú 24 ríkja hópmálsókn gegn umhverfisráðuneyti Bandaríkjanna (e. EPA) og 17 ríkja hópmálsókn gegn eftirlitsstofnunum í Kaliforníu og Nebraska.
Fréttamiðillinn WSJ segir að ríki eins og Nebraska hafi ákveðið að berjast gegn þessari þróun en það ríki reiðir sig mjög mikið á vörubíla. Nebraska hýsir lengstan hluta af þjóðveginum Interstate 80 og á þeim vegi finnst ekki ein einasta hleðslustöð.
„Jafnvel þó slíkir innviðir myndu skyndilega birtast þá er slík hleðsla hægt ferli sem sóar dýrmætum tíma. Fullhlaðinn vörubíll nær aðeins að keyra um fjórðung þeirrar leiðar sem vörubíll með fullan tank af dísil nær að keyra. Kalt veður dregur einnig úr drægni rafbílsins, þannig gangi þér vel að flytja vörur langar vegalengdir í þessum hluta landsins.“
Þá er einnig bent á að rafmagnsvörubílar séu þyngri en hefðbundnir vörubílar og hefur það áhrif á burðargetu þeirra og skemmdina sem þeir valda á vegi. Það er einnig ekki ljóst hvort rafmagnsnet Bandaríkjanna hafi getu til að sinna rafknúnum flota vöruflutningabíla.
„Segjum sem svo að þetta yrði framkvæmanlegt, þá myndi það gera Bandaríkjamenn enn háðari fjandsamlegum erlendum ríkjum sem ráða yfir miklum hluta þeirra nauðsynlegu steinefna sem fara í framleiðslu rafbíla.“