Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, standa allir mjög vel hvað eiginfjárstöðu varðar, enda ber þeim að hafa fremur hátt eiginfjárhlutfall í alþjóðlegum samanburði. Eigið fé Landsbankans nam 279 milljörðum króna um síðustu áramót, Íslandsbanka 219 milljörðum króna og Arion banka 188 milljörðum. Þá var heildareiginfjárhlutfall Landsbankans 24,7%, Arion banka 24% og Íslandsbanka 22,2%.
Ein mikilvægasta stærð til að mæla árangur banka er arðsemi eigin fjár, enda segir það til um hvernig tekst að ávaxta fjármagnið sem eigendur hafa bundið í félaginu. Stjórnir bankanna setja fram arðsemiskröfu og í dag er sú krafa gerð að Landsbankinn og Íslandsbanki skili 10% arðsemi. Aftur á móti hækkaði stjórn Arion banka arðsemiskröfu sína í lok árs 2021 úr 10% í 13%.
Undanfarin þrjú ár hefur Arion banki skilað mestri arðsemi. Í fyrra nam arðsemi eiginfjár bankans 13,7%, árið áður var arðsemin einu prósentustigi hærri og árið 2020 skilaði bankinn 6,5% arðsemi. Til samanburðar skilaði Íslandsbanki 11,8% arðsemi í fyrra, 12,3% arðsemi árið áður og 3,7% arðsemi árið 2020.
Arðsemi eiginfjár Landsbankans var svo 6,3% í fyrra. Á fyrri hluta síðasta árs var arðsemin einungis 4,6%, en uppgjör tímabilsins litaðist verulega af lækkandi hlutabréfagengi Marels. Landsbankinn á 3,5% óbeinan hlut í Marel í gegnum 14,1% eignarhlut bankans í fjárfestingafélaginu Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels. Í ársreikningi síðasta árs kemur fram að lækkun á gangvirði eignarhluta bankans í Eyri hafi numið 10,5 milljörðum króna. Bankinn náði að auka arðsemina á síðari helming ársins upp í 8%. Verðbólga er samkvæmt nýjustu mælingum 9,9% og var raunarðsemi bankans fyrir árið í heild því neikvæð um 3,6%. Árið 2021 nam arðsemi eigin fjár Landsbankans 10,8% og árið 2020 4,3%.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu.