Nesfiskur í Garði, fjórði stærsti hluthafi Iceland Seafood International (ISI), stækkaði hlut sinn í félaginu fyrir 49 milljónir króna í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Nesfiskur ehf. keypti 10 milljónir hluta á genginu 4,9 krónur á hlut í dag. Félagið á í dag 322,3 milljónir hluta, eða um 10,5% eignarhlut, í Iceland Seafood sem er um 1,6 milljarðar króna að markaðsvirði.
Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks, hefur setið í stjórn ISI frá því í mars 2020. Þetta eru þriðju hlutabréfakaup stjórnarmanna eða félaga á vegum stjórnarmanna Iceland Seafood í félaginu sem greint hefur verið frá í dag og í gær.
Jakob Valgeir ehf., félag á vegum Jakobs Valgeirs Flosasonar, keypti í ISI fyrir 122,5 milljónir króna í gær. Þá keypti Halldór Leifsson hlutabréf í félaginu fyrir ríflega eina milljón króna í gær.
Hlutabréfaverð Iceland Seafood International hefur hækkað um 6,1% í 285 milljóna króna veltu það sem af er degi og stendur nú í 5,20 krónum á hlut. Gengi hlutabréfa ISI er nú um 15% hærra en 4,52 króna dagslokagengi félagsins á miðvikudaginn.