Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gagnrýndi Nestlé fyrir að halda starfsemi sinni í Rússlandi gangandi. Í ræðu fyrir mótmælendur í Bern, höfuðborg Sviss, á laugardaginn sagði Zelensky að ósamræmi væri á milli slagorðs samstæðunnar „góður matur, gott líf“ og ákvarðana fyrirtækisins. Financial Times greinir frá.
Svissneski matvæla- og drykkjarvörurisinn hefur varið ákvörðun sína og segist ekki hagnast á rekstrinum í Rússlandi. Nestlé segist hafa dregið verulega úr starfsemi sinni í Rússlandi með því að stöðva allan inn- og útflutning nema þegar kemur að nauðsynjavörum. Auk þess hafi fyrirtækið hætt við frekari fjárfestingu og stöðvað auglýsingaútgjöld.
„Við högnumst ekki á eftirstandandi starfsemi,“ sagði talsmaður Nestlé. „Sú staðreynd að við, ólíkt öðrum matvælafyrirtækjum, útvegum fólki mat þýðir ekki að við högum okkur á sama hátt og áður.“
Nestlé, sem á vörumerki á borð við Nespresso og Perrier, er með yfir 7 þúsund starfsmenn í Rússlandi og um 2% af tekjum samstæðunnar koma frá Rússlandi. Fyrirtækið starfrækir áfram sex verksmiðjur í Rússlandi.
Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, ræddi við Mark Schneider, forstjóra Nestlé, símleiðis í síðustu viku. Shmyhal tístaði eftir fundinn að Schneider sýni stöðunni í Úkraínu engan skilning. Að greiða áfram skatta til „hryðjuverkalands“ sé ígildi þess að drepa varnarlaus börn og mæður þeirra. „Vona að Nestlé snúist hugur bráðum.“
Talked to @Nestle CEO Mr. Mark Schneider about the side effect of staying in Russian market. Unfortunately, he shows no understanding. Paying taxes to the budget of a terrorist country means killing defenseless children&mothers. Hope that Nestle will change its mind soon.
— Denys Shmyhal (@Denys_Shmyhal) March 17, 2022