Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Nettó sé tilbúið með alla innviði til að selja áfengi á netinu eins og aðrar verslanir sem hafa nýlega hafið slíka sölu.
Hún segir að það sé greinileg eftirspurn á markaðnum. Hagkaup hafi til að mynda selt mikið af áfengi um helgina og sagði framkvæmdastjóri Hagkaups að viðtökurnar hafi verið umfram væntingar.
„Leikreglurnar eru bara ekkert skýrar. Við sjáum að það eru aðilar, eins og Hagkaup og Heimkaup, sem eru að fara af stað og því fylgja lítil viðbrögð. En það er greinilega eftirspurn á markaðnum og neytandinn er að óska eftir þessu.”
Gunnur segir að Nettó hafi hingað til ekki talið það vera tímabært að hefja sölu fyrr en löggjöfin verði skýrari. Talsmenn Krónunnar tóku í sama streng og binda báðar verslanir vonir við að pólitíkin taki við sér og útskýri leikreglurnar.
„Maður áttar sig hins vegar alveg á því að ef löggjafinn ætlar ekki að taka nein skref þá þarf mögulega að endurskoða fyrri afstöðu, því markaðurinn hleypur bara áfram.“
Skyldi Nettó byrja að bjóða upp á léttvín þá segir Gunnur að það myndi vera mikið gleðiefni fyrir vínáhugafólk þar sem verslunin sé ekki einungis með tilbúna innviði, heldur séu innkaupasambönd fyrirtækisins í Evrópu mjög sterk.
„Það er gaman að segja frá því að ef þetta fer af stað þá gætum við boðið upp á mjög hagstætt verð og víntegundir sem hafa ekki verið til hér heima. Fyrir áhugafólk um vín þá er ótrúlega gott að geta boðið upp á besta verðið á hvítvíni, rauðvíni og bjór.“