Íslendingar hafa eytt rúmlega 27 milljörðum króna í erlendum netverslunum það sem af er ári samkvæmt uppfærðum netverslunarvísi RSV fyrir erlenda netverslun. Þetta er veruleg aukning frá sama tímabili í fyrra en þá nam sú upphæð 19 milljörðum króna.

Netverslun Íslendinga nam þá 4,34 milljörðum króna í september, sem er 14% aukning miðað við mánuðinn þar á undan sem einnig var metmánuður. Miðað við september í fyrra hefur erlend netverslun aukist um 92%.

„Ef þessi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að heildarverslun Íslendinga í erlendum netverslunum nái hátt í 44 milljörðum króna á þessu ári. Til að setja tölurnar í samhengi nam heildarkortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi í júlí tæpum 48 milljörðum króna, samkvæmt Seðlabanka Íslands,“ segir í tilkynningu RSV.

Eistland ný dreifingarmiðstöð

Í síðasta mánuði var einnig greint frá aukinni netverslun frá Eistlandi en þar hafði mánaðarlegt meðaltal farið úr 5,9 milljónum króna í 850 milljónir króna.

Sú aukning hefur nú vaxið enn meira, þar sem netverslun frá Eistlandi nam rúmum tveimur milljörðum króna í september, eða yfir 45% af heildarnetverslun Íslendinga erlendis þann mánuð.

Samtök verslunar og þjónustu segja að þessi þróun sé meðal annars rakin til nýrra dreifingarmiðstöðva stórfyrirtækja eins og Ali Express og Temu.