Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart Erninum Hjólum og Cintamani fyrir að hafa brotið gegn lögum með því að birta auglýsingar og vörulýsingar reiðhjóla ekki á íslensku. Þetta kemur fram á heimasíðu Neytendastofu.

Þar segir að Neytendastofa hafi fengið ábendingar um að vörulýsingar væru ekki aðgengilegar á íslensku en stofnunin skoðaði sjö vefsíður sjö seljenda reiðhóla og gerði athugasemdir við þær allar.

Neytendastofa hefur beint þeim fyrirmælum til Cintamani og Arnarins að birta vörulýsingar og auglýsingar á vefsíðum sínum á íslensku innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunarinnar, 20. mars.

Verði það ekki gert skal Örninn Hjól ehf. greiða dagsektir að fjárhæð 25 þúsund krónur á dag þar til farið hefur verið að ákvörðun Neytendastofu.

„Örninn Hjól ehf., Faxafeni 8, Reykjavík, hefur brotið gegn 4. mgr. 5. gr., laga nr. 16/2016, um neytendasamninga, með því að veita ekki upplýsingar um helstu eiginleika vöru á íslensku á vefsíðu sinni www.orninn.is. Örninn Hjól ehf., hefur brotið gegn ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með því að birta auglýsingar eingöngu á erlendu tungumáli á vefsíðu sinni,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.

Vísað er í 4. mgr. 5. gr. laganna þar sem fjallað er um skyldur seljenda til að veita upplýsingar sem neytendur eigi rétt á, samkvæmt lögum, á íslensku.