Neytendastofa hefur lokið fimm ákvörðunum vegna færslna á samfélagsmiðlum sem stofnunin taldi vera auglýsingar án þess að það fram kæmi nægilega skýrt fram, að því er segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Umræddar ákvarðanir eru gegn Sigurjóni Erni Sturlusyni ofurhlaupara, eistnesku-íslensku hlaupakonunni Mari Jaersk, jöklaleiðsögumanninum Matteo Meucci og Kraftar Media, félagi banda­rísku sam­fé­lags­miðlastjörnunnar Ky­ana Sue Powers.

Neytendastofa segir að ákvarðanirnar tengjast samræmdri skoðun neytendayfirvalda í Evrópu á því hvort rétt væri staðið að merkingum auglýsinga á samfélagsmiðlum sem stofnunin tók þátt í.

Í ákvörðununum fer Neytendastofa yfir lista af fyrirtækjum sem hafa birst í stöðufærslum eða „stories“ á Instagram-aðgöngum, og í sumum tilfellum TikTok aðgöngum ofangreindra einstaklinga.

Neytendastofa segir að í þeim færslum þar sem ákveðin fyrirtæki væru nefnd hafi ýmsar vörur verið kynntar og ágæti þeirra jafnvel tíundað. Fæstar þessara færslna hafi hins vegar verið merktar sem auglýsing eða með öðrum skýrum hætti greint frá því að þær séu gerðar í viðskiptalegum tilgangi.

Samkvæmt ákvörðunum Neytendastofu er ofangreindum einstaklingum bannað að birta auglýsingar með þeim hætti sem lýst er og varað er við sektum ef ekki verður farið að banninu.