Neytendastofa hefur sektað Samkaup um 300.000 krónur fyrir að auglýsa nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur en Neytendastofa hefur undanfarið haft til skoðunar auglýsingar á þeim vörum á samfélagsmiðlum, vefsíðum og utan á verslunum.
Stofnunin hefur nú birt ákvarðanir gagnvart þremur fyrirtækjum, Skýjaborgum ehf., Zolo og dætrum ehf. og Samkaupum hf. um brot gegn auglýsingabanni.
Í ákvörðunum stofnunarinnar er um það fjallað að óheimilt sé að auglýsa vörurnar þ.m.t. á samfélagsmiðlum. Auglýsingarnar falla þar undir allar myndbirtingar þar sem með beinum eða óbeinum hætti eru sýndar nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar. Þetta á við óháð því hvort fyrirtækið hafi greitt fyrir aukna dreifingu myndanna eða ekki.
Stofnunin lagði jafnframt áherslu á að lýsingar á vörunum í vefverslunum megi ekki ganga lengra en að lýsa þeim með hlutlausum hætti. Þannig teljist það brjóta gegn auglýsingabanni að birta t.d. ítarlegar lýsingar á bragði og upplifun.
„Inni í verslunum Krambúðanna má finna mynd sem líktist dósum fyrir nikótínpúða þar sem fram kæmi að verð á stykki sé 799 kr. en lækkað verð sé 699 kr. ef keyptar væru fimm dósir. Tiltók stofnunin að umrædd mynd, sem staðsett væri inni í verslunum félagsins, kynni að fela í sér auglýsingu á nikótínvörum og þ.a.l. kæmi til skoðunar hvort hún fæli í sér brot gegn 1. mgr. 11. gr. laga nr. 87/2018,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.
Þá benti stofnunin á að á samfélagsmiðlum félagsins, með áherslu á Facebook og Instagram, megi enn fremur finna mynd sem líkist dósum fyrir nikótínpúða. Stofnunin telji það koma til skoðunar hvort framangreindar auglýsingar feli í sér brot gegn 1. mgr. 11. gr. laga nr. 87/2018.
Samkaup hefur svarað málinu með því að benda á að á umræddri mynd megi sjá hvítan sívalning á grænum grunni og að engar merkingar séu á sívalningnum en á textanum sé að finna upplýsingar um lækkað verð.
Félagið telji því umrædda mynd sem Neytendastofa gerir athugasemdir við ekki falla undir bann laga nr. 87/2018 við auglýsingum á nikótínvörum. Á myndinni er hvergi að finna tilvísun til þess að um nikótínvörur sé að ræða, né sýni hún neyslu eða aðra meðferð á nikótínvörum.