Stjórn Niceair hefur ákveðið að gefa flugfélagið upp til gjaldþrotaskipta. „Við hörmum þann skaða sem af þessu hlýst hjá viðskiptavinum félagsins, starfsfólki, birgjum og öðrum sem verða fyrir áhrifum. Allar kröfur munu fara í sinn lögformlega farveg,“ segir stjórnin í tilkynningu.
Í byrjun apríl ákvað Niceair að aflýsa öllu flugi og gera hlé á allri starfsemi sinni eftir að félagið varð fyrir miklum skakkaföllum vegna vanefnda erlends samstarfsaðila þess, HiFly. Flugfélagið sagði upp öllu starfsfólki í lok apríl.
„Þar sem engin flug voru lengur á vegum félagins og félagið tekjulaust, voru forsendur fyrir nýlokinni fjármögnunarlotu brostnar og ekki reyndist mögulegt að innkalla hlutafjárloforð.“
Sorgleg málalok
Stjórn Niceair segir að óeðlilegir viðskiptahættir af hálfu HiFly hafi orðið þess valdandi að félagið hafði ekki lengur flugvél til umráða og ekki reyndist unnt að fá aðra vél á þeim tímapunkti.
„Þetta voru á allan máta óviðráðanlegar ástæður. Þessi málalok eru sérlega sorgleg þar sem góðar forsendur voru til staðar og reynslan hafði sýnt að rekstrargrundvöllur væri fyrir beinu millilandaflugi um Akureyri.“
Niceair hóf áætlunarflug í júní 2022 og var með ferðir til Danmerkur, Bretlands og Spánar. Félagið neyddist hins vegar til að taka ferðir til Standsted í London úr sölu í vetur vegna vandkvæða sem sneru að flugrekstrarleyfi HiFly. Í lok mars var flugvél sem Niceair hafði á leigu kyrrsett við komu til Kaupmannahafnar vegna deilna á milli eiganda og leigutaka vélarinnar.